Græn símanúmer

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:58:15 (3987)


[14:58]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Ég held að hér sé mjög gott mál tekið til umfjöllunar, vel unnið og skoðað. Og ég held að það hljóti að vera eðlileg krafa að svonefnd græn símanúmer gildi fyrir alla landsmenn að stofnunum ríkisins. Í greinargerð flm. kemur fram að landsbyggðarmenn þurfa af augljósum ástæðum að nota langlínusamtöl meira en 91-svæðið, sem ég nefni svo, vegna samskipta við ríkifyrirtækin. Núna eru á milli 70 og 80 græn númer, ég held reyndar að fyrirtækin sem hafa græn númer séu fleiri en 73. En ég vil einnig vekja athygli á því að það er oft æðimikið álag á þessum númerum og vont að ná sambandi. Þannig að landsbyggðarmenn guggna oft á biðinni og nota dýrari kostinn sem þeir venjulega eiga möguleika á.
    Frú forseti. Ég vil nálgast þetta mál með flm. en tel þó að ekkert réttlæti ríki í þessu máli fyrr en ein gjaldskrá gildir fyrir allt landið í raun. Á ýmsum sviðum er mikið misrétti á milli landsbyggðar og þéttbýlissvæða. Nefna má t.d. atkvæðavægið þar sem misrétti er á þann veg að það hallar á þéttbýlissvæði Reykjavíkur og Reykjaness. En í flestum öðrum málum hallar þó á landsbyggðina. Ég vil bara nefna nokkur atriði eins og vöruverð. Það er svo gífurlegur mismunur á vöruverði á Reykjavíkursvæðinu og svo á hinum ýmsu stöðum að það er ástæða til að skoða óréttlætið þar. Orkuverð er margfalt sums staðar á landsbyggðinni á móti því sem gerist á þéttbýlissvæðinu umhverfis og í Reykjavík. Sama má segja um samgöngur og fleira.
    Ég lýsi að öðru leyti ánægju með framsetningu þessa máls sem er mál jafnaðar og réttlætis. En eins og fram kemur í mínu máli þá tel ég fyrst nóg að gert þegar jafnrétti ríkir um kostnað á notkun síma. Það er ljóst að kostnaður fyrirtækja og einstaklinga á landsbyggðinni er miklu meiri en fólks í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þarf að laga, virðulegur forseti.