Græn símanúmer

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:01:41 (3988)


[15:01]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Frú forseti. Ég vil einungis í mjög stuttu máli lýsa eindregnum stuðningi mínum við þessa tillögu sem hér er flutt af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni ásamt nokkrum öðrum sem hann veitir forustu í þessu máli eins og reyndar fleiri málum þó þau mættu jafnframt vera nokkuð fleiri sem hann hefur forustu fyrir í sínum þingflokki.
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi eftir því sem hægt er að reyna að jafna aðstöðu manna og láta ekki búsetu valda skilum þar í milli. Það má gera með ýmsum hætti. Ég er t.d. eindregið þeirrar skoðunar að ein leið til þess sé sú að flytja ríkisstofnanir út á land. Eins og fram hefur komið hef ég þegar hafið slíkan flutning og er ekki séð fyrir endann á honum enn þá. Ég vil jafnframt að það komi fram, frú forseti, að í tilefni af þáltill. þá var mín athygli sem umhvrh. vakin á því að þarna gætu ráðherrar látið til sín taka til að jafna þennan aðstöðumun. Nú þegar hafa tvær af þeim stofnunum sem eru undir umhvrn., þ.e. bæði Veðurstofan og Skipulag ríkisins, græn númer. En ég tel rétt að það komi fram við þessa umræðu að eftir að þessi tillaga kom fram og vakti þar með athygli mína á þessu þarfa máli þá hef ég sem umhvrh. ákveðið að ráðuneytið taki upp grænt númer og jafnframt hef ég beint því til allra þeirra stofnana sem

eru undir umhvrn. að yfirmenn þeirra hlutist til um það að sem allra fyrst verði tekin upp græn númer á þessum stofnunum. Þannig að segja má að þessi þáltill. hafi þegar látið nokkuð gott af sér leiða.