Málefni aldraðra

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:29:13 (3993)


[15:29]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að ég hafi haldið því fram ( Umhvrh.: Nú er ég að hækka í tign.) --- umhvrh. Ég vildi gjarnan að hæstv. umhvrh. yfirtæki utanrrn. líka. Ég er alveg sannfærður um að það væri í betri höndum þar og ég teldi það mjög til athugunar fyrir Alþfl. að gera hæstv. umhvrh. að utanrrh. Þetta er bara ,,freudísk`` tilhneiging hjá mér eða líklega forspá að hækka hæstv. umhvrh. í tign. Þetta hefur reyndar komið fyrir mig áður og ég tel að það beri vitni um það að einhvern tímann á næstu öld verði hæstv. umhvrh. utanrrh. Íslands. En ég vonast eftir að hann verði ekki ráðherra næsta kjörtímabil.
    En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja í andsvari mínu heldur það að auðvitað þarf kerfið endurbóta við. Það sem ég var að gagnrýna fyrst og fremst er það hvernig það hefur verið notað, hvernig spilltir stjórnendur hafa afskræmt þetta kerfi. Það þarf ekki að koma neitt við hjartað í hæstv. umhvrh. að ég hafi verið að agnúast út í hæstv. félmrh. sem ber ábyrgð á þessum málaflokki. En ég tel sem sagt að það hafi verið notuð óeðlileg vinnubrögð í meðferð á öldruðum. Það er ekki kerfinu að kenna heldur vegna þess að hlutaðeigandi gæðingum hefur verið sleppt á gamla fólkið.