Málefni aldraðra

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:31:11 (3994)


[15:31]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég held að hér sé hreyft mjög þörfu máli sem þurfi skoðunar við og sé ástæða til að skoða gaumgæfilega því það vita allir sem hafa eitthvað kynnt sér þjónustu við aldraða í sveitarfélögunum og ekki síst í Reykjavík að það er talsvert mikið selt af íbúðum í borginni sem eru auglýstar og kallaðar söluíbúðir fyrir aldraða sem standa engan veginn undir nafni og þær hafa aldrei gert það. Þetta er ekkert nýtilkomið. Það var byrjað á því 1986 að byggja slíkar íbúðir og þá þegar komu fram varnaðarorð, m.a. í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar, að það væri ansi hæpið að þessar íbúðir stæðu undir nafni og hugsanlegt að það væri verið að selja öldruðu fólki falskt öryggi með því að auglýsa þær svona.
    Reykjavíkurborg átti að vissu leyti hlut þar að máli því hún hafði samstarf m.a. við Samtök aldraðra og líka Verslunarmannafélag Reykjavíkur. Það var kannski Verslunarmannafélag Reykjavíkur sem reið á vaðið með að byggja söluíbúðir fyrir aldraða og Reykjavíkurborg lagði til þjónustukjarna í þeirri blokk sem átti að vera ætlaður öllum íbúum í því hverfi. Þar er þjónustumiðstöð fyrir aldraða núna í Háleitis- og Hvassleitishverfi. Auðvitað þjónar hún ekki bara íbúunum í þessu húsi heldur í hverfinu öllu. Margir stóðu hins vegar í þeirri trú þegar þeir keyptu íbúðir bæði þar, í Bólstaðarhlíðinni, Aflagranda og víðar þar sem slíkar íbúðir hafa verið byggðar, að ef eitthvað kæmi upp á þá væru þeir með einhverjum hætti betur settir í þessum húsum en ef þeir væru í sínum íbúðum úti í bæ. Sú hefur ekki orðið raunin. Fólk sem býr í þessum íbúðum á náttúrlega engu meiri rétt en hver annar Reykvíkingur sem býr í sinni íbúð úti í bæ því þjónustan sem rekin er þarna er ætluð öllum Reykvíkingum án tillits til búsetu. Þessir íbúar hafa því ekki notið þjónustu umfram aðra og oft og tíðum verið að kaupa sér falskt öryggi, komist síðan að því þegar þeir verða lasburða og þurfa verulega þjónustu að þeir þurfi að flytja sig um set og hafa ekki þá umönnun sem þeir þurfa á að halda.
    Það er því full ástæða til þess að stíga varlega til jarðar í þessum málum þegar kemur að því að auglýsa og markaðssetja svokallaðar sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða.
    Í þessu máli er reyndar sérkapítuli sem aðeins hefur verið gerður að umtalsefni og það er hvernig Reykjavíkurborg hefur staðið að málum þegar hún hefur skikkað félög sem ætla sér að byggja slíkar íbúðir, ég nefni t.d. Bústaðahverfið þar sem átti að fara að byggja íbúðir fyrir aldraða og var það aðallega sóknin sem var að vinna að því máli. Félagið var í rauninni skikkað til að taka tiltekinn verktaka sem í því tilviki var, ef ég man rétt, Ármannsfell. Að öðrum kosti fengju þeir ekki lóðina á þessum stað nema þau ynnu það verk í samvinnu við Ármannsfell. Það var, held ég, útskýrt með þeim hætti að Ármannsfell væri líka búið að sækja um lóð fyrir séríbúðir fyrir aldraða og þessum tveimur aðilum væri þarna stefnt saman.
    Þetta fyrirkomulag er andstætt þeirri stefnumörkun sem uppi hefur verið, ef ég tek bara ríkið, að það eigi að bjóða út sem flestar framkvæmdir og það eigi að vera mjög vel skilgreint útboð sem flestum eigi að gefast kostur á að taka þátt í og þannig sé hægt að ná niður verði. Þetta er auðvitað ekki síst mikilvægt á tímum eins og eru núna þegar kreppir að og eðlilegt að menn fái að keppa um þessi verk sem í boði eru.
    Það er auðvitað sérstakt að þessi mál hjá Reykjavíkurborg hafa verið gerð að sérstöku umtalsefni í skýrslu sem unnin er á vegum félmrn. og hv. flm. þessa máls, Svavar Gestsson, gerði að umtalsefni hér áðan. Þar segir: ,,Þannig hafa þau félög í Reykjavík sem byggt hafa flestar íbúðir fyrir aldraða, Félag eldri borgara og byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra, búið við þessi skilyrði`` --- þ.e. að það væru settar á þau ákveðnar hömlur. --- ,,Sami byggingaraðili hefur byggt allar íbúðir aldraðra á vegum Félags eldri borgara. Lóðaúthlutanir til félagsins hafa verið skilyrtar því að ákveðið byggingarfyrirtæki annist framkvæmdir og því hefur Félag eldri borgara ekki átt þess kost að leita tilboða eða bjóða út verkin.``
    Það er auðvitað algerlega óviðunandi að unnið sé með þessum hætti og það sýnir manni hvað stórir verktakar hafa komið ár sinni vel fyrir borð í sveitarstjórnarmálum. Það er auðvitað ekki bara í Reykjavík, þetta á líka við í Hafnarfirði, eins og hér hefur verið bent á, Kópavogi og víðar. Þetta er alþekkt fyrirbrigði, ekki bara hér á landi heldur úti um allan heim, að verktakar reyna gjarnan að koma ár sinni vel fyrir borð í bæjarfélögum til að tryggja sinn hlut. Við sjáum þetta mjög skýrt hér á Íslandi eins og annars staðar.
    En einn liður í þessu máli sem er kannski umhugsunarverður er hversu gífurleg bólga, getum við sagt, hefur verið í þessum byggingum. Þannig segir í þessari skýrslu frá félmrn. að á árabilinu 1987--1992 megi ætla að rúmlega 2.000 íbúðir fyrir aldraða hafi verið byggðar eða séu í byggingu. Þorri þess fólks sem keypt hefur þessar íbúðir átti sínar eigin íbúðir fyrir og kannski skuldlausar. Þetta fólk fór inn í húsnæðislánakerfið, fékk þar lán til 40 ára með tiltölulega lágum vöxtum, innan við 4% vöxtum meðan almenna húsnæðislánakerfið var við lýði, en þarf núna að sækja inn í húsbréfakerfið. Þarna er í rauninni um endurfjármögnun að ræða, eða hvað eigum við að segja, það er í rauninni ný skuldsetning. Fólk sem er meira og minna skuldlaust tekur þarna talsverð lán og skuldsetur sig upp á nýtt. Það er kannski ekkert við því að segja. Þetta hefur í ákveðnum tilvikum orðið þess valdandi að fólkið hefur haft meira fé á milli handanna til þess að reka heimili sín eða gera sér dagamun eða annað slíkt og ekkert nema gott um það að segja, því ekki eru nú ellilaunin og tekjutryggingin neitt til að hrópa húrra fyrir. Hins vegar er þetta auðvitað partur af því vandamáli sem við er að etja í íslensku samfélagi í dag, þ.e. þessi mikla skuldsetning sem hér hefur verið, sem hefur aukist alveg gífurlega á síðastliðnum tíu árum. Ef ég man rétt þá nálgast það fjórföldun eða eitthvað álíka á kannski aðeins ríflega tíu árum. En samt sem áður þá er hún gífurlega mikil. Og þetta er auðvitað partur af þessum vanda að það skuli vera beinlínis stefnt að því og unnið að því í gegnum bankakerfið og húsnæðislánakerfið að fólk sem á skuldlausar íbúðir fyrir fari beinlínis að skuldsetja sig fyrir nýjum íbúðum. Og eins og ég segi, það er ekki við þetta fólk að sakast sem kaupir sér þessar íbúðir. Það trúir því að það sé að fá ákveðið öryggi sem í mörgum tilvikum er falskt. Það kemst í hentugri íbúðir í húsum sem eru með lyftum, ef það hefur búið við óhagstæð skilyrði og oft eru þessar íbúðir þannig úr garði gerðar að það er auðvelt að fara um þær í hjólastól. Þannig að þetta fólk er auðvitað að sækja þarna í ákveðna hluti sem eru mjög eðlilegir.
    En eins og ég segi, mér finnst ástæða til þess að skoða þetta frv. gaumgæfilega og að þarna sé hreyft þörfu máli og það þurfi með einhverjum hætti að koma í veg fyrir að það séu beinlínis gefnar villandi og rangar upplýsingar í fasteignaauglýsingu þegar verið er að selja fólki sérhannaðar íbúðir, kannski svolítið undir því yfirskini að það fái þar eitthvert öryggi sem síðan er ekki til staðar.