Málefni aldraðra

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:43:03 (3996)


[15:43]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum um málefni aldraðra er vissulega allrar athygli vert. Það er þó rétt að taka fram að nokkrar upplýsingar sem eru hér eru kannski þess eðlis að öðrum þáttum hefði mátt gefa betri gaum. Einkum t.d. sjómannasamtökunum sem hafa verið að byggja fyrir aldraða raðhús og einhverra hluta vegna ekki verið tekið inn í viðmiðun grg. frv. og mun ég koma aðeins að því á eftir.
    Það sem hér hefur komið fram í máli manna varðandi þær íbúðir sem byggðar hafa verið og einkum og sér í lagi hefur hv. þm. Páll Pétursson gert það að löngu og miklu máli að í Reykjavík væri ekki við öðru að búast en að mikið íhaldsbrask ætti sér stað varðandi byggingar á íbúðum fyrir aldraða. Getur þess sérstaklega líka að það séu ákveðnir byggingabraskarar og aðilar sem fái úthlutað og síðan fái aldraðir þar aðgang að.
    Að meginhluta til er þetta rangt vegna þess að Félag eldri borgara í Reykjavík hefur oftast fengið þessar lóðir úthlutaðar og síðan hefur það leitað til byggingaraðila. Það getur náttúrlega ekki verið í höndum borgaryfirvalda hverjir byggja fyrir þá aðila sem hafa fengið úthlutaðar lóðir. Þannig að ég vísa þessu máli til föðurhúsanna. Hitt er svo aftur annað mál, eins og hér var komið inn á áðan, að þessar íbúðir sem sérstaklega eru auglýstar fyrir aldraða eru kannski þess eðlis að ekki er mikill munur á þeim íbúðum sem þetta aldraða fólk flytur í og það var í áður. Kannski einkum og sér í lagi ekki annað en þröskuldarnir og þröskuldaleysið og lyftur. En yfirleitt er þó einn þáttur sem ekkert hefur verið nefndur hér en það er auðvitað hinn félagslegi þáttur sem snýr að því að þetta fólk hefur --- maður er manns gaman og Reykjavíkurborg hefur yfirleitt byggt við þessi hús þjónustukjarna sem að vísu þjónar fleiri öldruðum heldur en þeim sem búa í þeim blokkum eða blokkaríbúðum sem þessi þjónustukjarni er byggður við, hann þjónar þá venjulega einhverjum ákveðnum hverfum. Og ég veit ekki betur en að því fólki sem þarna hefur flutt inn líði yfir höfuð vel. Þó eru dæmi um annað og það eru líka dæmi um að ekki hafi verið staðið að verki eins og upphaflega var lofað þegar fólk keypti. Verðlagningin er svo sér kapítuli út af fyrir sig. En einkum og sér í lagi er það kannski vegna þess hve sameiginlegt rými er stórt.
    Þá kem ég að þætti sjómannasamtakanna sem hafa verið að byggja raðhús bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík fyrir aldraða. Og varðandi þær upplýsingar sem hér hafa legið fyrir frá félmrh. þá er dálítið merkilegt að þessi vinnuhópur skyldi ekki hafa horft á þær byggingar sem sjómannasamtökin hafa byggt nú nýlega við Jökulgrunn í Reykjavík. Aðeins örfá dæmi um það.
    Nettóverð í þeim fjölbýlishúsum sem byggð hafa verið að undanförnu miðað við verðlag í ágúst 1993 er eftirfarandi:
    Ef litið er á t.d. Sólvog, þ.e. sérstök bygging, íbúð fyrir aldraða. Þar er nettóverð á fermetra 131

þús. kr. Íbúðir fyrir aldraða við Grandaveg, þar er nettóverð á fermetra 113 þús. kr. En ef við lítum á raðhús með bílskúr við Jökulgrunn í Reykjavík, sem byggt er af sjómannasamtökunum, þá er nettóverð þar 118 þús. kr. Það er ekki langt síðan að hér kom einn ágætur þingmaður upp í ræðustól og talaði um okurbyggingar sjómannasamtakanna. Tölulega er hér sýnt fram á að þessar byggingar, sem ég veit að hv. flm. þessa frv. sem hér er til umræðu, Svavar Gestsson, þekkir mjög vel, eru fyrsta flokks byggingar, en eru þó byggðar með þessum ódýra hætti sem ég tiltók og sakna þess að sjá ekki í greinargerð með þessu frv. Það hefði nú kannski verið eðlilegra að taka það inn. En eins og ég vildi segja, það er ekki allt sem sýnist í þessu. Það eru margar hliðar á þessu máli og ég get alveg tekið undir að þær eru til dökkar. En menn eiga þá ekki að gera þessa hlið dekkri en raun ber vitni um, vegna þess, eins og ég sagði hér áðan, að meginhluta til hefur lóðunum verið úthlutað til félagasamtaka aldraðra sem síðan hafa leitað til byggingaraðila til að byggja þessi hús í samstarfi og sitt sýnist svo hverjum hvernig á hefur verið haldið. En þar á ekki Reykjavíkurborg neinn hlut að máli með öðrum hætti en þeim að hún hefur komið að málinu til að reysa þar þjónustukjarna með því sem nauðsynlegt er talið hvað varðar hina félagslegu og þjónustulegu hlið aldraðra, með hárgreiðslustofu, fótsnyrtingu, böðum og síðast en ekki síst með mötuneyti þar sem hinir öldruðu geta fengið ódýrt fæði.
    Ég vildi aðeins að gefnu tilefni, virðulegur forseti, leggja áherslu á þau verð sem ég var að nefna. Ég á ótal fleiri dæmi sem ég get borið saman við þau raðhús sem sjómannasamtökin hafa byggt og lýsti hér áðan í verðlagningu hvað nettóverð á fermetra áhrærir. Ég gæti þess vegna sýnt og látið hv. þm. Svavar Gestsson hafa afrit af þessu því ég tek undir það sem hann sagði að þetta er ekki pólitískt mál í sjálfu sér vegna þess að hér er sá hópur í borginni sem á vissulega skilið að vera gert hærra undir höfði en raun ber vitni um. Enda liggur nú fyrir heilbr.- og trn. frv. um breytingu á lögum um málefni aldraðra sem gengur út á að málefni aldraðra fái sérstaka umfjöllun í kerfi borgarinnar. Ekki á tveimur stöðum eins og nú er, í byggingarnefnd aldraðra og í Félagsmálastofnun, heldur verði eitt sérstakt öldrunarráð á vegum Reykjavíkurborgar búið til með þeirri lagasmíð.