Tekjuskattur og eignarskattur

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 16:17:10 (4004)



[16:17]
     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga sem liggur frammi á þskj. 285 og er 246. mál um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og varðar ákvæði um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri eins og skýrt er á þskj. Tillöguna flyt ég til þess að bæta stöðu þeirra sem festa fé nú samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði í sparisjóðum. Áður en þau lög tóku gildi var algengasta form sparisjóðanna þannig að svonefndir ábyrgðarmenn lögðu fram tryggingu til að standa að baki rekstri þeirra, en með þessum lögum er þeim öllum gert að breytast í stofnfjársjóði og þá ábyrgðarmönnum að breytast í stofnfjáreigendur. Um stofnfé sparisjóðanna og um réttindi stofnfjáreigenda er ætlað að gildi allar sömu reglur um réttindi og skyldur og um kaupendur og eigendur hlutabréfa og hlutafjár í almennum hlutafélögum.
    Þá verður svo komið, virðulegi forseti, að sparisjóðir munu keppa um eigin fjármögnun á raunverulega opnum fjármagnsmarkaði þar sem valkostir kaupendanna verða hlutabréf í hvers konar öðrum fyrirtækjum, þar á meðal hlutafélagabönkum. Það eina sem á vantar, virðulegi forseti, er að þeir sem kaupa stofnbréf í sparisjóðum fái sama rétt og aðrir til að draga þessa fjárfestingu í atvinnurekstri frá skattskyldum tekjum sínum. Um það snýst tillagan að jafna þann rétt þannig að þeir hafi sömu réttindi og sömu skyldur og aðrir einstaklingar sem leggja fé í atvinnurekstur.
    Sparisjóðir eru allvirðulegar og mikilvægar stofnanir í ýmsum landshlutum. Yfir 30 sparisjóðir starfa á landinu og þó nokkrir þeirra eru í tölu stærstu innláns- og útlánastofnana í landinu. Ég tel þess vegna rétt að gera þeim sama rétt, sömu skyldur og sömu möguleika og öðrum til að starfa áfram, vera áfram virkir og mikilvægir þátttakendur í fjármagnsviðskiptum á Íslandi. Ef við gerum ekki þessa breytingu, þá má þess vænta að þeir verði aldrei jafnfrjálsir að starfsemi sinni og bankarnir sem þeir þó hljóta alltaf að keppa við.
    Ef þetta verður að lögum, virðulegi forseti, þá telst mér svo til að sparisjóðir fengju sama rétt og samvinnufélög hafa nú til að búa til, stofna og gefa út hlutabréf eða stofnfjárbréf í eins konar B-deild sem samvinnufélög fengu sérstakan rétt til með lögum. Kaupendur þeirra bréfa hafa vel að merkja fullkominn rétt til þess að draga kaupverð þeirra frá skattskyldum tekjum sínum eins og kaupendur hlutabréfa að hverjum öðrum hlutafélögum, þar á meðal hlutafélagabönkum.
    Að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að tillögunni verði vísað áfram til 2. umr. og til frekari athugunar í efh.- og viðskn. þingsins.