Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 16:48:35 (4009)


[16:48]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir orð síðasta ræðumanns að Landhelgisgæslan á miklu meira skilið en það séu einhverjar dagskipanir sem lúta að varðandi framtíð hennar. Það er hins vegar eitt sem menn verða að gera sér fulla grein fyrir að varðskipið Óðinn er líklega að verða eitt af alelstu skipum í íslenska flotanum. Ég held að það þurfi nú ekki að liggja yfir þessari heildarmynd og heildarframtíðarsýn Landhelgisgæslunnar með þeim hætti að ekki megi fara að huga að nýju varðskipi. Stjórnendur Landhelgisgæslunnar og starfsmenn vita nokkuð hvað er þeim heppilegast til endurnýjunar á því ágæta skipi þannig að í sjálfu sér þó að ákvörðun verði tekin um annaðhvort að byggja eða leita að notuðu varðskipi erlendis þá mundi það ekki rugla þá mynd sem hér er verið að tala um að menn þurfi nauðsynlega að búa sér til um framtíð Landhelgisgæslunnar.
    Ég tek líka heils hugar undir það sem sagt var um björgunar- og öryggisþátt Landhelgisgæslunnar. Menn hafa allt of oft einblínt á það þegar talað er um þyrlu Landhelgisgæslunnar að það skipti sjómenn eina öllu máli að til sé björgunarþyrla. Nú er það svo að mikill hluti björgunarflugs þyrlu Landhelgisgæslunnar er vegna leitar eða aðstoðar við fólk hér á landi. Og sá þáttur virðist gleymast nokkuð þegar menn eru að tala um að það þurfi fljúgandi sjúkrabíl fyrir sjómenn. Það er hluti af málinu en það er minna mál í sjálfu sér hvað varðar notkun þyrlunnar en engu að síður mjög mikilvægt mál vegna þess að það getur skipt sköpum, það getur skipt mínútum varðandi líf sjómanna ef þeir eru við störf á hafi úti ef ekki er hægt að koma þeim undir læknishendur svo fljótt sem verða má þannig að mikilvægi þyrlunnar ef horft er á þann þáttinn er auðvitað miklu, miklu meira gagnvart sjómönnum en landfólki yfirleitt vegna þess að oftar en ekki er verið að leita að fólki sem hefur komið sér sjálft í óráðsíu, veður upp um fjöll og firnindi án tillits til veðurfars o.s.frv. o.s.frv., án þess að hugsa um veðurspá. Síðan kostar það skattborgarana stórfé að leita að þessu fólki. Undantekningarlaust er það af mikilli yfirvegun og íhugun hvort þyrla þurfi að fara til hafs til að sækja sjómenn. Þá eru málin orðin margrædd á milli skipstjórnarmanna og lækna um nauðsyn þess að þyrla sé til kölluð þannig að í langflestum tilfellum er það mjög að yfirveguðu ráði. En þegar þyrla er kölluð til hér innan lands þá er það oftar en ekki vegna þess að þeir sem þurfa á aðstoðinni að halda hafa komið sér oftast í þann vanda með vítaverðu gáleysi og kæruleysi.
    Þess vegna vildi ég að lokum taka undir það sem hér hefur komið fram. Landhelgisgæslan er útvörður okkar íslensku efnahagslögsögu. Við eigum að gera henni hátt undir höfði og við eigum að sinna þeirri stofnun miklu betur og meira heldur en gert hefur verið vegna þess að sjávarfangið eins og ég hef sagt áður skiptir okkur öllu máli.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessri tillögu verði vísað til allshn.