Rannsóknir og þróun í fiskvinnslu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:36:01 (4020)


[15:36]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Fsp. byggist á þeim misskilningi að ekkert fé hafi verið til boða af opinberri hálfu til verkefna af þessu tagi. Um það má alltaf deila hversu mikið fé ríkið eigi að láta af höndum í þessu skyni en því verður ekki á móti mælt að á undanförnum árum hefur þrátt fyrir allt töluverðu fjármagni verið ráðstafað til að styðja við rannsóknir og þróunarvinnu sem kemur atvinnulífinu til góða og ekki síst fiskvinnslunni.
    Á þessu kjörtímabili hefur veruleg aukning orðið á fjárveitingum af þessu tagi. Fyrirtæki geta sótt um styrki til opinberra rannsóknasjóða. Þau geta fengið aðstoð af ýmsum toga hjá rannsóknastofnunum og nokkrir skólar á framhalds- og háskólastigi taka með beinum hætti þátt í rannsóknum og nýsköpunarstarfi með fyrirtækjum og öðrum aðilum.
    Á síðasta ári varði ríkisstjórnin 50 millj. kr. til sérstaks markaðsátaks vegna tilkomu hins Evrópska efnahagssvæðis. Þar af komu rúmar 20 millj. kr. í hlut sjávarútvegsfyrirtækja. Í ár verður sömu upphæð varið til þessa og er það von mín að hlutur sjávarútvegsfyrirtækja verði ekki minni að þessu sinni. Auglýst verður fljótlega eftir umsóknum um þessa styrki.
    Ég tel rétt að framhald verði á slíkum styrkveitingum á komandi árum en þeir verða ekki endilega tengdir Evrópska efnahagssvæðinu sérstaklega. Það er hins vegar eðlilegt að gera það nú vegna þeirra nýju tækifæra sem sá samningur hefur gefið íslenskri fiskvinnslu til vöruþróunar inn á Evrópumarkaðinn.
    Fjárveitingar til Rannsóknasjóðs hafa verið auknar
verulega síðustu ár. Þannig var framlag til sjóðsins rúmlega 83 millj. kr. árið 1990. Á síðasta ári var það

155 millj. og á þessu ári 200 millj. Verulegur hluti af styrkjum ráðsins renna til sjávarútvegsfyrirtækja, m.a. til fullvinnslu sjávarfangs.
    Á undanförnum árum hefur fyrirtækjum, þar með talið í sjávarútvegi, staðið til boða ýmiss konar aðstoð stofnana og sjóða. Þar má nefna vöruþróunarverkefni á vegum Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins og Iðntæknistofnunar og útflutnings- og þróunarverkefni Útflutningsráðs fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þá hafa sjóðir, eins og sá sem hv. þm. gat hér um, stutt við bakið á fyrirtækjum í nokkrum mæli.
    Það er alveg ljóst að afkoma þjóðarinnar á næstu árum mun í mjög verulegum mæli byggjast á því að okkur takist að auka hér vöruþróun og frekari fullvinnslu á sjávarfangi. Í þeim efnum hefur mikið verið að gerast á síðustu árum, bæði fyrir tilstuðlan þeirra aðila sem hér hafa verið nefndir og einnig vegna frumkvæðis og fjármögnunar frá fyrirtækjunum sjálfum. En ég vil leggja á það áherslu að hér er að sjálfsögðu hægt, bæði af opinberri hálfu og af hálfu fyrirtækjanna, að ganga lengra og mjög brýnt að við aukum þessa starfsemi og hvetjum fyrirtækin fyrst og fremst til þess að takast á við þessi verkefni sem um leið eru markaðsverkefni því brýnt er að menn geri sér fulla grein fyrir því að vöruþróun og frekari fullvinnslu fylgir vitaskuld sú kvöð að við markaðssetjum nýjar afurðir með árangri.