Rannsóknir og þróun í fiskvinnslu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:41:41 (4022)


[15:41]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð þekkt staðreynd sem margoft hefur komið fram bæði hér á landi og í skýrslum alþjóðastofnana að Íslendingar leggja minna til rannsókna- og þróunarstarfsemi í atvinnuvegum sínum en flestar aðrar iðnvæddar þjóðir. Ég hygg að það sé staðreynd að það fé sem gengur til fullvinnslu sjávarafla er ekki mikið að vöxtum. Þess vegna kom mér nokkuð á óvart að hæstv. sjútvrh. skyldi gera svo mikið úr þeim möguleikum sem er eru fyrir hendi. Ég held að menn verði að viðurkenna það að þarna er um afar smávaxnar upphæðir að ræða miðað við gildi sjávarútvegs í þjóðarbúskap okkar. Og þó ég þakki hæstv. ráðherra fyrir svarið þá get ég ekki verið honum sammála um að hér sé nóg að gert. Ég held að það sé brýn þörf á miklu stærri og völdugri aðgerðum á þessu sviði einmitt til að fullvinnsla sjávarafurða verði sá mikilvægi vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi sem hún hlýtur og á að vera.