Rannsóknir og þróun í fiskvinnslu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:43:36 (4023)


[15:43]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég hef þá sjálfsagt talað óskýrt ef tveir hv. þm. hafa skilið orð mín á þann veg að ég hafi fullyrt að nóg væri að gert. Ég benti á að það hefur í verulegum mæli verið tekist á við þessi verkefni bæði af opinberum aðilum og einstökum fyrirtækjum. En ég hélt að ég hefði sagt það alveg skýrt að báðir aðilar geta gert meir og hugtakið nóg í þessu efni er vandskýrt. Og af opinberri hálfu hljóta menn ávallt að togast á um fjármuni í þessu skyni eins og öðrum. Aðalatriðið er þó það og það sjáum við á reynslu undanfarinna ára að við náum mestum árangri í vöruþróun þar sem fyrirtækin sjálf takast á við þetta verkefni að eigin frumkvæði og eigin getu. Og það leiðir okkur að öðrum þætti sjávarútvegsmálanna sem skiptir auðvitað höfuðmáli. Það er að fyrirtækin geti skilað þeim arði að þau geti staðið undir verkefnum af þessu tagi í ríkari mæli en við þær þröngu aðstæður sem þau búa við í dag sem eðlilega skýrast af breyttum ytri skilyrðum, minnkandi afla og lækkandi verði. En við eðlileg rekstrarskilyrði þá er það brýnast að fyrirtækin sjálf hafi þá afkomu að geta tekist á við þessi verkefni.