Rækjukvóti loðnuskipa

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:45:48 (4024)


[15:45]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Á árinu 1988 var skipt 7.000 tonnum af rækjukvóta á milli 40 loðnuskipa til að bæta þeim m.a. upp skerðingu á botnfiskheimildum sem urðu til þegar kvótakerfið var tekið upp árið 1984. Á þessum tíma var loðnan ekki mikið veidd. Hún var í raun og veru í veiðanlegu lágmarki og verðið breyttist lítið. Útgerðir loðnubáta áttu því í talsverðum erfiðleikum fjárhagslega og því þótti á þessum tíma þetta eðlileg ráðstöfun til jöfnunar.
    Nú er þessu á annan veg farið. Loðnan virðist í góðu ástandi og veiðist í miklu magni. Það hefur því verið hægt að auka loðnukvótann og verð á henni er hátt um þessar mundir. Þau loðnuskip sem hafa yfir að ráða rækjukvóta á þessum tíma sem áður er getið hirða fæst um að veiða hann en eru að selja hann öðrum. Útgerðarfélög rækjuskipa kaupa mikið af kvóta af loðnuflotanum. Kvótinn er hins vegar dreifður á mörg skip en lítið hjá hverju þannig að hann nýtist illa. Ég tel þær forsendur sem voru árið 1988 til að úthluta rækjukvóta til loðnuskipa séu brostnar. Nú eru það aðrar útgerðir sem þurfa á þessum aflaheimildum að halda og það gæti stuðlað að atvinnuaukningu í landi.
    Ég hef því leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. á þskj. 553, svohljóðandi:
    1. Hyggst ráðherra endurúthluta rækjukvóta þeim sem úthlutað var til loðnuskipa árið 1988?
    2. Ef svo er, verður þeim kvóta þá úthlutað til útgerða á þeim stöðum sem hafa farið hvað verst út úr skerðingu á þorskkvóta?