Bætur til bænda vegna harðinda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:14:08 (4038)


[16:14]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Samkvæmt upplýsingum úr landbrn. hefur Bjargráðasjóður gert athugun á því hversu mikill skaði bænda varð vegna harðæris á sl. sumri. Niðurstaðna er að vænta í lok þessa mánaðar. Mér er sagt að u.þ.b. 150 umsóknir um aðstoð hafi borist. Þetta þýðir að Bjargráðasjóður hefur komið að þessu máli eins og hv. þm. taldi eðlilegt í sínu máli.
    Eins og hv. þm. og aðrir hv. þm. vita eru tjón vegna harðinda aðallega af tvennum toga. Annars vegar að bændur þurfa að kaupa inn fóður vegna ótíðar og hins vegar vegna þess að tún eyðileggjast. Bjargráðasjóður hefur greitt bætur vegna fyrrnefndra tjóna en ekki vegna þeirra síðarnefndu. Þegar niðurstaða liggur fyrir munu viðræður verða teknar upp milli fjmrn. og landbrn. við Bjargráðasjóð og þá unnið úr málinu.
    Á sínum tíma var rætt um að setja heimild í fjárlög með beinum hætti í aðrar greinar heldur en þá 6. eða fjáraukalög 1993 en þar sem upphæðin er óviss þótti eðlilegra að hafa hana í 6. gr. fjárlaga. Þá vil ég að fram komi að í upphafi var rætt sérstaklega af hálfu ríkisstjórnarinnar um stuðning við bændur á Norðausturlandi en textinn í fjárlögunum miðast ekki sérstaklega við það.
    Loks vil ég segja að upphæðin verður að sjálfsögðu takmörkuð þótt hv. þm. hafi talað um opna heimild, þó ekki væri nema vegna þess að það eru afar takmarkaðir fjármunir sem fjárlög gera ráð fyrir að veittir verði vegna heimilda í 6. gr.
    Meira tel ég ekki ástæðu að komi til á þessu stigi málsins en ég veit að hæstv. landbrh. og fulltrúar í landbrn. væru tilbúnir til að gefa hv. þm. frekari upplýsingar um stöðu málsins nú.