Innheimta þungaskatts

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:20:26 (4041)


[16:20]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrir stuttu síðan spurði hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson um olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla og þá um leið hvernig ráðherra teldi að innheimtan hefði gengið í núverandi kerfi. Þar svaraði hann því til að kerfið hefði bæði kosti og galla en innheimtan hefði út af fyrir sig gengið vel. Þessu er ég algerlega ósammála. Það má e.t.v. segja að tekist hafi að innheimta af þeim hópi manna sem venjulega standa í skilum. Hitt er líka vitað að a.m.k. meðal þeirra manna sem vinna við þennan atvinnuveg að stórkostlegt svindl er í kerfinu og hafa menn þar talað um 150--200 millj. kr. undanskot frá skatti og það geti raunar verið allt að helmingi meira. Það er því alveg augljóst að það kerfi sem við notum í dag hefur algjörlega gengið sér til húðar og tímabært að breyta því sem allra fyrst.
    Í því svari sem ég vitnaði til áðan sagði hæstv. ráðherra einnig að í gangi væri nefnd sem ætti að skila skýrslu um þetta mál í febrúar. Nú hef ég ekki heyrt enn um það að þessi skýrsla sé komin út. Á meðan á Vegagerðin að líta eftir þessum skatti og það er rétt að geta þess að við fjárlagagerð var gert ráð fyrir 50 millj. kr. auknum tekjum til vegmála vegna sérstaks átaks í innheimtu á þungaskatti. Mér er því spurn: Hvernig verður staðið að þessari innheimtu og telur ráðherra einhverja von til þess að Vegagerðin geti komið í veg fyrir það svindl sem viðgengist hefur í þessu kerfi?
    Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um það hvernig skatteftirlit okkar hefur verið í molum. Það er tímabært að við förum að dæmi annarra þjóða og tökum upp litaða olíu á bílana og innheimtum skattinn þannig. Þannig yrði stoppað í mörg göt í skattheimtu sem skekkja, eins og nú er ástatt, samkeppnisstöðu þeirra sem hlíta settum reglum. Því ber ég fram þessa fsp. til hæstv. fjmrh.: Hvernig verður staðið að þessu sérstaka átaki í innheimtu þungaskatts?