Innheimta þungaskatts

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:33:43 (4048)


[16:33]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur látið það koma fram, sem er hárrétt, að eftirlitið hlýtur að verða betra eftir að Vegagerðin tók við því enda koma fleiri menn að málinu og þess vegna full ástæða til þess að ætla að fjármunir komi frekar inn með því kerfi heldur en því sem áður var, enda er það stærra og mikilvirkara.
    Í öðru lagi vil ég láta það koma skýrt fram að fjmrn. hefur þá skoðun og sá ráðherra sem hér stendur að það eigi að skoða mjög alvarlega hvort ekki beri að skipta um kerfi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt einmitt vegna þess að það er gert víðast annars staðar með góðum árangri. Það koma tvær leiðir til greina: Það er að nota litaða olíu, sem tekur talsverðan tíma, a.m.k. eitt og hálft ár í undirbúningi, eða ólitaða olíu sem hefur bæði kosti og galla því það þýðir að það þarf að beita einhvers konar endurgreiðslum ef sú leið verður notuð. Þá kem ég að því sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði réttilega að það verður að líta á kostnaðinn við hið nýja kerfi.
    Ég hef að sjálfsögðu tekið á móti fulltrúum bifreiðastjóra, sérstaklega hjá Landvara. Þeir hafa kvartað undan því að á þjóðvegum landsins séu á ferðinni aðilar sem greinileg svíki undan þessum skatti. Þeim málum er að sjálfsögðu vísað beint til skattrannsóknarstjóra ríkisins og ég treysti því að hann láti kanna það rækilega með þeim aðferðum sem hann beitir hvort skattsvik séu á ferðinni í þessum efnum eins og annars staðar. Að öðru leyti tel ég ástæðulaust að tjá mig um þann hluta málsins því ef um skattsvik er að ræða þá á að sjálfsögðu að uppræta þau í þessum efnum eins og annars staðar þar sem um eðlilegar skattgreiðslur er að ræða hjá almenningi og fyrirtækjum.