Starfsemi Landgræðslu ríkisins

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:40:19 (4053)


[16:40]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er í fyrsta lagi: ,,Hve miklu melfræi var safnað í sumar? Hvað taldi Landgræðslan æskilegt að safna miklu magni?``
    Því er til að svara að meira var safnað af melfræi á sl. hausti en nokkru sinni fyrr eða um 50 tonnum af óverkuðu fræi. Unnið er að þurrkun, hreinsun og fullverkun fræsins þannig að um 75 tonn af húðuðu melfræi verði tiltæk til sáningar í vor. Miðað við fjárveitingar á árinu 1994 var þetta æskilegt magn. Miðað við þörf fyrir melsáningu til að uppfylla þáltill. og stefnu ríkisstjórnarinnar um stöðvun hraðfara gróðurs- og jarðvegseyðingar hefði uppskeran þurft að vera þrefalt meiri en það hefði aftur þýtt auknar fjárveitingar.
    Spurt er: ,,Hvaða girðingar í umsjá Landgræðslunnar njóta þess viðhalds að viðunandi sé?`` Landgræðsla ríkisins hefur reist alls 129 girðingar frá upphafi starfsemi sinnar. Af þessu hafa verið afhentar 45 girðingar til landeigenda. Nú eru alls 94 girðingar sem eru 1--138 km að lengd sem njóta viðunandi viðhalds. Eins og fram kom hjá hv. þm. hef ég afhent honum lista yfir þessar girðingar. Ég vil jafnframt taka fram að hugur minn stendur til þess að svigrúm gefist til þess á næsta ári að bændur geti með virkari hætti en nú er tekið þátt í landgræðslustörfum og er þá komið til móts við þau sjónarmið sem hv. þm. hafði uppi og vonast til þess að geta flutt frv. um þau efni nú innan skamms sem varðar það mál.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hagnýtir Landgræðslan sér búfjáráburð í starfi sínu?`` Því er til að svara að á meðan búrekstur var stundaður í Gunnarsholti var búfjáráburður mikið notaður þar. Landgræðslan hefur hvatt mjög til aukinnar notkunar á búfjáráburði í landgræðslu svo og lífrænum úrgangi og er samstarfið þar að lútandi við allmarga aðila, svo sem hestamannafélög og sveitarstjórnir. Þeir bændur sem eru í sérstöku samstarfi við Landgræðsluna samkvæmt bókun 6 í búvörusamningi nota mikinn búfjáráburð til uppgræðslu heimalanda. Fjöldi annarra bænda gerir slíkt hið sama og eins og ég sagði áðan þá geri ég mér vonir um að hægt sé að útvega fjármagn til þess að sú samvinna um það samstarfi geti aukist. Raunar felst það í þeim nýju áherslum og tillögum sem fagráð Landgræðslunnar er nú að vinna að og vonandi verða tilbúnar á komandi hausti.