Réttur vörubílstjóra til atvinnuleysisbóta

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:47:11 (4056)

[16:47]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 503 fsp. til hæstv. félmrh. á þessa leið:
    ,,Með hvaða hætti hyggst ráðherra beita sér fyrir því að tryggður verði eðlilegur réttur þeirra til atvinnuleysistrygginga sem hafa haft framfæri af akstri vörubifreiða?``
    Þessi fsp. er borin fram vegna þess að eftir að lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð var breytt á sl. ári hefur verið þrengdur réttur tveggja hópa til atvinnuleysisbóta. Þ.e. annars vegar smábátaeigendur og hins vegar vörubílstjórar.
    Ég vil láta það koma fram hér, virðulegi forseti, af því að ég tók allvirkan þátt í umræðunni um breytingar á lögunum í fyrra þegar sett voru lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð hin nýju. Ég tel að þessi túlkun á því að útiloka trillusjómenn og vörubílstjóra sé í mótsögn við lögin og í andstöðu við lögin af því að í umræðunum var bersýnilega verið að tala um það að víkka út rétt sjálfstætt starfandi aðila en þrengja hann ekki. Þess vegna vil ég láta það koma fram að sú túlkun reglugerðarinnar og ráðuneytisins á þessu máli að vörubílstjórar og trillusjómenn verði að hafa lagt niður starfsemi og selt atvinnutækin og lagt niður virðisaukaskattsnúmer sín sé forsenda fyrir því að þeir fái bætur, ég tel það í fullri andstöðu við umræðurnar um lögin og anda laganna eða anda þeirra umræðna og greinargerða sem fram fóru um málið. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að það sé beinlínis fráleitt að setja hlutina upp eins og gert er gagnvart atvinnubifreiðastjórum og trillusjómönnum. Ég hef lesið umræðurnar um trillusjómenn frá síðasta fyrirspurnafundi þar sem hæstv. ráðherra gefur í skyn að það séu vafaatriði í lagagrunninum í þessu efni. Ég vil segja það fyrir mitt leyti, að ég tel að það sé ekki. Og ég tel að það væri eðlilegast að leysa þetta mál með því að bæta nýrri mgr. við 6. gr. reglugerðarinnar eins og hún var gefin út í fyrra með því að segja beinlínis: Ákvæði þessarar greinar eiga þó ekki við vörubifreiðastjóra né þá sem stundað hafa sjósókn á eigin fari enda uppfylli viðkomandi allar forsendur að öðru leyti.
    Hér er í raun og veru verið að taka upp aftur efnistriði 4. gr. gömlu laganna, en þar var gert ráð fyrir því að sjómenn sem stunda sjósókn á eigin fari gætu átt rétt til atvinnuleysisbóta. Þessi grein var felld út en hún var örugglega ekki felld út til þess að fella út rétt þessara manna. Með hliðsjón af því tel ég einfalt að breyta þessu og skora á hæstv. ráðherra að gefa helst í dag út reglugerð sem tryggir trillusjómönnum og vörubifreiðastjórum þennan rétt rétt. Það getur ráðherrann svo að segja með einu pennastriki.