Réttur vörubílstjóra til atvinnuleysisbóta

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:55:50 (4058)


[16:55]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu efni sem hér er nú til umræðu með fyrirspurn sinni og það í svari hæstv. ráðherra að það væri e.t.v. nauðsynlegt að taka þessi mál til endurskoðunar. Ég held að það þyrfti að gera hið allra fyrsta.
    Mér finnst raunar með ólíkindum að þetta skyldi geta þróast á þennan veg af því eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda þá var auðvitað hugmyndin sú að rýmka reglur Atvinnuleysistryggingasjóðs með tilliti til bótaréttar en ekki þrengja hann eins og tvímælalaust hefur orðið hér í þessu umrædda tilviki. Og að hugsa sér það að viðkomandi einstaklingar eigi að selja atvinnurekstur sinn, selja atvinnutæki, bílinn, bátinn eða hvað það er, sem er nú í þessu tilfelli bifreiðin, og/eða stöðva rekstur í eitt ár er auðvitað allt annað heldur en það sem á við um aðra bótaþega sem hverfa frá vinnu tímabundið einhverja daga, vikur eða mánuði, sem er nú reyndar orðið því miður of algengt. Það er alveg óásættanlegt að svona sé háttað bótarétti þessara einstaklinga og ég skora á ráðherra að bregðast nú þegar við. Það getur ekki þurft að bíða lengi eftir því ef þetta er mál sem hægt er að leiðrétta í reglugerð en annars verður bara að breyta lögum til að taka það alveg skýrt fram að svona getur þetta ekki verið.