Greiðslur atvinnuleysisbóta til bænda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:04:30 (4064)


[17:04]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Það er óhætt að fullyrða að engin stétt hefur orðið fyrir jafnmiklum tekjusamdrætti á síðustu þremur árum og sauðfjárbændur. Vegna samdráttar á framleiðslurétti fyrir innanlandsmarkað á þessum þremur árum hafa launatekjur þeirra dregist saman um u.þ.b. helming. Þó samdráttur í öðrum búgreinum hafi orðið minni er þó ljóst að þungt er einnig fyrir fæti hjá mörgum þar og mikil óvissa fram undan. Af þessu leiðir að á búum þar sem tveir unnu áður er ekki lengur næg vinna nema fyrir einn. Aðrir sjá fram á að ekki er lengur er orðinn grundvöllur fyrir neinum búrekstri og verða að leggja hann niður enda sá möguleiki sem lagður var til grundvallar við gerð síðasta búvörusamnings að leita vinnu við önnur störf í nágrenni víðast hvar ekki lengur fyrir hendi vegna hins almenna atvinnuleysis.
    Með lögum um atvinnuleysistryggingar sem samþykkt voru á síðasta ári er gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar fái rétt til atvinnuleysisbóta eins og kom fram í umræðunni hér á undan um vörubílstjóra og trillusjómenn. En í þeim hópi eru einnig bændur, enda höfðu bændur þá greitt tryggingagjald í nokkur ár.
    Með reglugerð sem gefin var út á grundvelli þessara laga virðast hins vegar hafa verið settar svo þröngar skorður að lokað hafi verið allt of mikið fyrir þann rétt. Þar má t.d. benda á að í ákvæðum til bráðabirgða er forsenda til bóta að tryggingagjald hafi verið greitt frá 1. okt. 1992 til 30. sept. 1993. Nú eru ábúendaskipti yfirleitt á vori og er því erfitt að skilja af hverju sá sem hætti búskap í upphafi fardagaárs nýtur ekki sama réttar og sá sem hættir síðar á árinu. Af hverju á sá sem er búinn að vera fimm mánuðum lengur atvinnulaus minni rétt?
    Það virðast vera lagðir ýmsir óeðlilegir þröskuldar fyrir rétt bænda til atvinnuleysisbóta og til þess að fá nánari upplýsingar um hver reynslan hefur orðið á þeim stutta tíma síðan lögin komu til framkvæmda hef ég leyft mér að bara fram eftirfarandi spurningar til hæstv. félmrh. á þskj. 520:
  ,,1. Hversu margir bændur hafa sótt um atvinnuleysisbætur?
    2. Hversu margir bændur hafa fengið samþykktar greiðslur atvinnuleysisbóta?
    3. Hversu mörgum bændum hefur verið synjað um atvinnuleysisbætur og af hvaða ástæðum?``
    Með tilliti til þess sem fram kom í umræðunni áðan að þessar reglur yrði að endurskoða sem fyrst vil ég taka undir það að þá er mjög brýnt að málefni bænda verði þar einnig tekin inn.