Unglingaheimilið í Stóru-Gröf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:14:34 (4070)


[17:14]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Varaþingmaður minn, Anna Kristín Gunnarsdóttir, sem sat hér í fjarveru minni fyrir skömmu, ber fram fsp. til félmrh. þess efnis hver séu áform ráðuneytisins um áframhaldandi rekstur unglingaheimilis í Stóru-Gröf í Skagafirði.
    Eins og þeir þekkja sem flett hafa fjárlögum þá er þar gert ráð fyrir að um verði að ræða áframhaldandi rekstur á slíkri starfsemi en hins vegar hefur það gerst nú að leigu á jörðinni hefur verið sagt upp og starfsfólk hefur fengið uppsagnarbréf. Þannig að það er augljóst mál að til standa einhverjar verulegar breytingar á þessari starfsemi og greinilegt að hún verður ekki á þeim stað sem verið hefur.
    Nú er það staðreynd að þessi bráðnauðsynlega starfsemi hefur gengið mjög vel á þessum stað, hvort sem húsnæði hefur að öllu leyti hentað eða ekki, það er ég ekki dómbær á. Ég hygg að allir sem nærri þessari starfsemi hafa komið, hvort heldur er starfsfólk, vistmenn eða aðstandendur geti borið um að þessi starfsemi hefur tekist mjög vel og virðist vera brýn þörf á því að henni sé haldið áfram. Þess vegna er það ekki að ófyrirsynju að fsp. er borin fram.