Unglingaheimilið í Stóru-Gröf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:21:55 (4072)

[17:21]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn því ég veit að það eru margir sem brenna í skinninu að heyra þær upplýsingar sem hér koma fram. Mér er ekki alveg fullljóst af svörum hæstv. ráðherra hvort það muni unnt að nýta þann góða árangur og þá góðu reynslu sem hefur orðið af starfinu á Stóru-Gröf en ég tel það mjög mikilvægt og vona að það verði kappkostað að hugsa til þess þar sem þarna hefur í rauninni í fyrsta skipti í langan tíma náðst mjög umtalsverður árangur í þeim vanda sem við höfum staðið frammi fyrir varðandi börn og unglinga sem hafa hrakist frá einum stað til annars. Ég held að það sé einfaldlega of dýrt fyrir okkar þjóðfélag að glutra niður þeirri góðu reynslu sem þarna hefur orðið af starfinu þannig að ég legg ríka áherslu á að það verði gert í góðu samráði við það fólk sem þar starfar að fylgja þessu starfi eftir og hafa tiltæk þau úrræði sem þarna hefur verið hægt að bjóða upp á.