Þriggja ára áætlun um rekstur sveitarfélaga

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:28:12 (4075)


[17:28]

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. 3. varaþm. Norðurl. v., Anna Kristín Gunnarsdóttir, sem sat á þingi í fjarveru minni ekki alls fyrir löngu, bar fram til félmrh. fsp. um gerð þriggja ára áætlunar um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélaga. Í 76. gr. sveitarstjórnarlaga segir skýrum orðum eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Á fyrsta ári hvers kjörtímabils skal sveitarstjórn semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins.
    Áætlunin skal vera rammi um árlegar áætlanir sveitarfélagsins og skal endurskoða hana hverju sinni í tengslum við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.``
    Hér kemur fram að það er hrein og klár lagaskylda að slík áætlun sé gerð og þess vegna ekkert óeðlilegt að við reynum að átta okkur á því og fá yfirlit yfir það hvort sveitarfélög hafi öll sinnt þessari skyldu.
    Í öðru lagi er spurt að því hvernig eftirliti ráðuneytisins sé háttað með því að umrætt lagaákvæði komi til framkvæmda.