Þriggja ára áætlun um rekstur sveitarfélaga

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:29:56 (4076)


[17:29]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í ráðuneytinu hafa eftirtalin sveitarfélög gert þriggja ára áætlanir um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili sveitarstjórna. Það liggja ekki fyrir í ráðuneytinu tæmandi upplýsingar um þetta efni og ráðuneytið gengur út frá því að miklu fleiri sveitarfélög hafi gengið frá slíkum áætlunum þó staðfestingar á því liggi ekki fyrir í ráðuneytinu.
    Hér er um að ræða, virðulegi forseti, um 100 sveitarfélög og samkvæmt efni fyrirspurnarinnar er rétt að vísa því til forseta hvort þrátt fyrir takmarkaðan ræðutíma verði hjá því komist að lesa upp nöfnin á hverju og einu þessara 100 sveitarfélaga. Ég hef til hægðarauka afhent fyrirspyrjanda lista yfir þessi 100 sveitarfélög og það tekur nokkurn tíma að lesa þau upp. Mun ég að sjálfsögðu gera það nema forseti hafi aðrar bendingar.
    ( Forseti (PJ): Forseti telur eðlilegt að þeim upplýsingum sem hæstv. ráðherra telur sig eigi geta komið á framfæri í þeim knappa ræðutíma sem er í þessum dagskrárlið verði komið á framfæri skriflega.)
    Já, virðulegi forseti. Ég tel að það taki mig nokkurn tíma að lesa upp þessi 100 sveitarfélög þannig að komi ekki athugasemdir við það hjá fyrirspyrjanda, þá læt ég það nægja að hafa afhent fyrirspyrjanda lista og tel mig þar með hafa svarað 1. tölul. fsp.
    Síðari spurningin er: ,,Hvernig er háttað eftirliti ráðuneytisins með því að lagaákvæði um áætlanagerðina sé framfylgt?``
    Því er til að svara að í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 er ekki gerð krafa um að sveitarstjórnir skili þriggja ára áætlunum til ráðuneytisins. Eftirlit ráðuneytisins hvað þetta varðar er fyrst og fremst fólgið í því að leggja í byrjun hvers kjörtímabils sveitarstjórnar ríka áherslu á að sveitarfélögin sinni þessari skyldu. Berist ráðuneytinu vitneskja eða kvartanir um að einhver sveitarfélög vanræki þetta er skorað á þau að bæta úr.