Sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:35:57 (4079)


[17:35]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um að félagsmálanefndir skuli leitast við að bjóða upp á félagslega ráðgjöf og er markmiðið með henni að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Í fsp. er spurt bæði um sálfræði- og félagsráðgjöf sem kveðið er á um í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég vil vekja athygli á því að ekki er að finna ákvæði um sálfræðiráðgjöf í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hins vegar hafa allra stærstu sveitarfélögin ráðið sálfræðinga til starfa hjá sér og nokkrir félagsmálastjóranna hafa slíka menntun.
    Einkum koma sálfræðingarnir við sögu þegar um er að ræða vinnu við barnaverndarmál en um þau mál er farið í samræmi við lög um vernd barna og ungmenna.
    Það er spurt hvaða sveitarfélög veiti sálfræði- og félagsráðgjöf sem kveðið er á um í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. 24 sveitarfélög hafa ráðið til sín félagsmálastjóra. Segja má að öll þessi sveitarfélög veiti skipulagða þjónustu í samræmi við lögin. Þessi sveitarfélög eru Akranes, Garðabær, Ísafjörður, Njarðvík, Siglufjörður, Akureyri, Grindavík, Keflavík, Ólafsfjörður, Seltjarnarnes, Borgarnes, Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjavík, Seyðisfjörður, Dalvík, Hveragerði, Mosfellsbær, Sauðárkrókur, Vestmannaeyjar, Egilsstaðir, Höfn í Hornafirði, Neskaupstaður og Selfoss.
    Það er rétt að taka fram að aðeins í stærstu sveitarfélögunum er að finna félagsmálastofnanir með fagmenntað starfslið en annars staðar er einungis um einn starfsmann að ræða, félagsmálastjórann, sem er jafnvel í hlutastarfi. Það kann að vera að einhver önnur sveitarfélög hafi ráðið félagsráðgjafa til sín. Mér er kunnugt um að Húsavíkurbær auglýsti nýlega eftir félagsráðgjafa til starfa og nokkur sveitarfélög hafa enn fremur gert samning við starfandi félagsráðgjafa í öðrum sveitarfélögum um að veita íbúum þeirra þjónustu, en þar er ekki um jafnskipulagða þjónustu að ræða og hjá fyrrnefndum sveitarfélögum sem ráðið hafa til sín félagsmálastjóra. Mér er einnig kunnugt um að sveitarfélög hafa ráðið félagsráðgjafa vegna einstakra erfiðra mála sem upp hafa komið.
    Eins og á þessu má heyra, þá veita langflestir kaupstaðanna skipulagða félagsþjónustu, en nokkrir þeirra hafa ekki ráðið til sín félagsmálastjóra, en það eru Stykkishólmur, Ólafsvík, Bolungarvík, Blönduós, Húsavík, Eskifjörður og Sandgerði. Íbúum langflestra minni sveitarfélaganna stendur því ekki til boða skipulögð félagsþjónusta. Vegna smæðar sinnar eru þau tæpast í stakk búin að ráða faglærðan starfskraft til starfa og þrátt fyrir ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þess efnis að einstök sveitarfélög geti sameinast um framkvæmd félagsþjónustunnar með ýmsum hætti, þá hafa mér vitanlega engin sveitarfélög sameinast um félagsþjónustu. Einstaklingar og fjölskyldur á landsbyggðinni njóta því alls ekki sambærilegrar félagsþjónustu og íbúar stærri sveitarfélaganna og því miður hafa nokkrar sveitarstjórnir enn ekki kosið félagsmálanefndir þrátt fyrir ákvæði laganna þar að lútandi en á árunum 1992 og 1993 voru lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga kynnt rækilega fyrir sveitarstjórnarmönnum og fulltrúum í félags- og barnaverndarnefndum í formi námskeiða sem haldin voru víða um landið. Þar voru sveitarfélögin enn fremur hvött til þess að sameinast um þessa þjónustu með einum eða öðrum hætti. Ég vænti þess að í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna í vor verði gengið frá kosningu félagsmálanefnda í öllum sveitarfélögunum og enn fremur að minni sveitarfélögin beri gæfu til þess að sameinast um skipulagða og skilvirka þjónustu einstaklinga og fjölskyldna vegna þess að það er erfitt við það að búa að framkvæmd félagsþjónustunnar sé með allt öðrum hætti úti á landsbygginni en t.d. í stærri kaupstöðunum.