Skólaskip

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:44:50 (4082)


[17:44]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég svara þessari spurningu hv. þm. á þessa leið:
    Sjóvinna er valgrein í grunnskólum. Um valgreinar gilda þær reglur að skólum er heimilt að bjóða nemendum nám í greinum sem aðstaða er til að kenna og kennarar fást í. Það eru nánast engar hömlur settar á valgreinar af hálfu menntmrn. Á landinu öllu munu vera boðnar fram 60--80 valgreinar á hverju ári. Um er að ræða mjög fjölbreytilegt framboð og fer það eftir aðstöðu og kennslukröftum hverju sinni hvað er í boði. Sjóvinna hefur verið í boði sem valgrein í nokkrum skólum um árabil. Svo virðist sem nemendum sem eiga kost á sjóvinnu og velja sjóvinnu sem valgrein fari heldur fjölgandi. Samkvæmt skólaskýrslum stunduðu 225 nemendur í 8., 9. og 10. bekk sjóvinnunám árið 1991--92 á landinu öllu.
    Til að geta boðið sjóvinnu sem valgrein þarf skóli að hafa húsnæði og aðra aðstöðu og hæfa kennara. Menntmrn. greiðir fyrir kennsluna og hefur ekkert staðið á því. Það er hins vegar sveitarfélaga að sjá um aðstöðuna og fyrir sveitarfélögin get ég ekki svarað.
    Það er í sjálfu sér vandalaust að kenna nemendum í grunnskólum ýmis grundvallaratriði varðandi sjómennsku og sjóvinnu án þess að gera út sérstakt skólaskip. Ég sé ekki ástæðu til að ríkið standi í slíkri útgerð enda væri það þvert á verkaskiptalögin frá árinu 1989. Það er hins vegar ekkert nema gott um það að segja ef sveitarfélög vilja bjóða nemendum upp á sjóferðir eða sérstaka kennslu um borð í skipum og standa straum af kostnaðinum sem af því leiðir fyrir utan kennslukostnaðinn, sem eins og ég sagði, er greiddur af menntmrn.