Veiðar á ref í friðlandinu á Hornströndum

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:01:36 (4089)


[18:01]
     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á norðanverðum Vestfjörðum var um aldir blómleg byggð þar sem heitir Sléttuhreppur en hann hlaut þau örlög að fara í eyði árið 1952. Í þessu byggðarlagi, oft kennt við Hornstrandir, við Aðalvík og í Jökulfjörðum var mannlíf gott en lífsbarátta hörð og samhjálp sú er hver og einn gat veitt náunga sínum. Í langan tíma eftir að sveitin lagðist í eyði voru þarna takmarkaðar mannaferðir og þá helst að afkomendur sæktu á slóðir forfeðra sinna auk þess sem gamlir Sléttuhreppingar bjuggu sér sumardvöl á heimaslóðum.
    Þetta hefur mikið breyst nú síðari ár. Til viðbótar þeim er sækja á slóðir forfeðra eða í heimahaga hafa augu annarra opnast fyrir þeirri náttúruperlu sem þarna er að finna norður á hjara landsins. Margir þeir sem sótt hafa Hornstrandir og Sléttuhrepp heim hafa lýst því sem sérstakri lífsreynslu, ekki síst því hve ósnortin náttúran er. Fuglalíf, dýralíf og gróður allur ber þess sterk merki að lengstan hluta ársins er landið þarna í friði fyrir ágangi af manna völdum. Það hefur verið gagnrýnt í mín eyru af mörgum sem þarna hafa dvalist að farið skuli um svæðið á hverju sumri til að veiða ref, væntanlega í tengslum við eyðingu minka en samkvæmt upplýsingum mínum hafa þrír menn verið ráðnir undanfarin ár til grenjavinnslu í friðlandinu á Hornströndum.
    Friðlandið er tveir hreppar, Grunnavíkur- og Sléttuhreppur. Ég gagnrýni ekki eyðingu minka en á svæði sem þessu er eyðing refa umdeild. Þeir sem dvalist hafa á þessum slóðum, t.d. í tjaldi eða í báti við mannlausa vík, hafa lýst því á skemmtilegan hátt hvernig refurinn kemur forvitinn að fylgjast með mannfólkinu og margir telja að refurinn eigi að fá að vera hluti af hinni ósnortnu náttúru sem þarna er að finna. Með tilliti til ákvæða sem gilda um friðlandið á Hornströndum um að leyfi landeigenda þurfi til allra veiða, leyfi Náttúruverndarráðs til hefðbundinna nytja og að öll meðferð skotvopna er bönnuð nema með sérstakri heimild sýslumanns, spyr ég:
  ,,1. Hefur verið sótt um leyfi landeigenda og Náttúruverndarráðs til að veiða ref í friðlandinu Hornströndum frá því að það var friðlýst?
    2. Hefur verið sótt um leyfi sýslumanns til að nota skotvopn við refaveiðar í friðlandinu á Hornströndum frá því að það var friðlýst?
    3. Ef ekki hefur verið sótt um leyfi landeiganda eða sýslumanns, hver er þá skýringin á því að árlega eru stundaðar refaveiðar í friðlandinu án heimilda?
    4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ríkissjóður hætti að greiða kostnað við refaveiðar í friðlandinu á Hornströndum?``