Veiðar á ref í friðlandinu á Hornströndum

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:11:22 (4093)


[18:11]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki að það sé hægt að áfellast sýslumanninn í þessu tilviki fyrir það að ráða menn til grenjaleita og veiða þrátt fyrir það að honum var líka falið að framfylgja friðunarákvæðunum frá því Hornstrandirnar voru friðlýstar. Ástæðan er einfaldlega sú að það hefur myndast ákveðin hefð og hún er talin byggjast á því að lögin frá 1957 um eyðingu refa og minka sé í rauninni yfirsterkari náttúruverndarlögum frá 1971. Ég tel sjálfur að það sé verulega umdeilanlegt og hefði talið undir öðrum kringumstæðum að það væri ástæða til þess að fá einhvern haldbæran aðila eins og Lagastofnun Háskóla Íslands til þess að skera úr um það. Það er hins vegar ekki ástæða til þess því að fyrir þessu þingi liggur frv. um veiðar og vernd villtra dýra þar sem gert er ráð fyrir því að þessi lög frá 1957 falli úr gildi en veiðunum verði stjórnað með sérstakri reglugerð.
    Hins vegar þótti mér merkilegt að hlýða hér á mál hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur vegna þess að hún er staðkunnug og flytur hér ákveðna reynslu sem hún og ættingjar hennar hafa aflað sér á þessu svæði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt einmitt að hlusta á rök eins og þessi. Ég tel t.d. að þær upplýsingar sem hér koma fram að fuglalíf í tilteknum hlutum Hornbjargs og jafnvel stofnar mófugla hafi að einhverju leyti minnkað vegna þess að ekki hefur tekist að eyða þar einu greni, séu mikilvægar upplýsingar sem nauðsynlegt sé að kanna í framtíðinni ef menn ætla að taka ákvarðanir í þessa veru. En það er rétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að ef umhvrh. í þessu tilviki ákveður að hætta að leggja til fjármagn til þess að hafa stjórn á refastofninum í Hornstrandafriðlandi þá falla veiðar sjálfkrafa niður. En áður en það er gert tel ég að það sé mikilvægt að fara í einhvers konar rannsóknir, sérstaklega á mófuglastofnum.