Sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:13:48 (4094)


[18:13]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Í fjarveru minni ekki alls fyrir löngu bar Anna Kristín Gunnarsdóttir, 3. varaþm. Norðurl. v., fram fyrirspurn sem er svohljóðandi:
    ,,Hvaða sjúkrahús og heilsugæslustöðvar uppfylla lagaákvæði um sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf?``
    Fyrirspurn þessari var beint til heilbrrh.
    Þessi fyrirspurn er að sjálfsögðu náskyld fsp. sem var gerð grein fyrir hér fyrr í dag og beindist að félmrh., en þá var um að ræða hvernig háttað væri sálfræði- og félagsráðgjöf sveitarfélaga. Nú spyr fyrirspyrjandi þess sama hvað varðar sjúkrahús og heilsugæslustöðvar.
    Hér á Alþingi urðu ekki alls fyrir löngu nokkrar umræður um ráðgjöf til fjölskyldna í sambandi við sameiginlegt forræði eftir skilnað. Það vakti athygli fyrirspyrjanda að þá var bent á að sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og sveitarfélög veittu þjónustu í slíkum tilvikum. Hins vegar er það auðvitað staðreynd að þessi þjónusta er mjög óvíða fyrir hendi og á hún þó að vera það samkvæmt lögum, m.a. hjá sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Þetta vill fyrirspyrjandi gjarnan draga hér fram og vekja athygli á og hefur því beint þessari fsp. til hæstv. heilbrrh.