Sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:16:08 (4095)


[18:16]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint svohljóðandi fyrirspurn:
    ,,Hvaða sjúkrahús og heilsugæslustöðvar uppfylla lagaákvæði um sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf?``
    Í lögum um heilbrigðisþjónustu er ekki bindandi ákvæði um það hvernig sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf skuli háttað í heilbrigðisstofnunum. Hins vegar er þess getið þegar rætt er um störf á heilsugæslustöð að þar skuli vera veitt félagsráðgjöf, þar með talin fjölskyldu- og foreldraráðgjöf. Þessi starfsemi fellur undir heilsuvernd.
    Ráðuneytið hefur aflað sér upplýsinga um það hvar félagsráðgjafar og sálfræðingar starfi á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum og fengið eftirfarandi upplýsingar: Á Ríkisspítölum, Borgarspítala og sjúkrahúsinu á Akureyri eru starfandi bæði félagsráðgjafar og sálfræðiráðgjafar. Á Landakoti er starfandi félagsráðgjafi. Á sjúkrahúsi og heilsugæslustöð á Egilsstöðum er starfandi sálfræðingur og við heilsugæslustöðvarnar á Húsavík og á Akureyri eru starfandi félagsráðgjafar. Á það má einnig minna í þessu sambandi að tveir prestar eru nú starfandi bæði á Borgarspítala og Landspítala og prestur starfar á Landakoti. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að félagsráðgjafar eða sálfræðingar séu starfandi við aðrar heilbrigðisstofnanir. Það gefur því auga leið að sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf er á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum öðrum en þeim sem að framan voru talin á hendi lækna og hjúkrunarfræðinga. Það er að sönnu ljóst að sálgæsla er eðli máls samkvæmt mikilvægur þáttur heilsuverndar. Ég vil nefna í þessu sambandi að þættir eins og áfallahjálp sem í auknum mæli hafa komið upp á yfirborðið og hlotið verðskuldaða umræðu eru nú til sérstakrar athugunar í ráðuneyti í samstarfi við ýmsa aðila aðra, svo sem hlutverk heilsugæslu í þeim efnum.
    Þá vil ég einnig geta þess að heilsugæslustöðvar hafa kappkostað að halda góðu samstarfi við skólayfirvöld og það í gegnum skólahjúkrunarfræðinga til þess að samfella sé í þessari nauðsynlegu sálgæslu í því tilfelli gagnvart skólabörnum. Ég hygg að þó sé óhætt að fullyrða að sá andi laganna sem lýtur að þessum þætti heilsuverndar þurfi allnokkurra betrumbóta við þannig að vel fari. Á hinn bóginn tel ég og bind við það vonir að með auknum skilningi á þessum þætti heilsuverndar miði okkur þó í rétta átt.