Ráðning sjúkraþjálfara við heilsugæslustöðvar

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:25:34 (4100)


[18:25]

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 551 beini ég eftirfarandi fsp. til hæstv. heilbrrh.:
    ,,Hvernig hefur verið framfylgt ákvæðum 17. gr. heilbrigðisþjónustulaga, nr. 97/1990, um ráðningu sjúkraþjálfara til H2 heilsugæslustöðva og í öll heilsugæsluumdæmi Reykjavíkur?``
    Varðandi þessa fsp. þá vil ég taka það fram að tilgangurinn með því að ráða sjúkraþjálfara að heilsugæslustöðvum er fyrst og fremst sá að þeir leiðbeini en ekki að þeir meðhöndli. Þarna getur verið um umtalsverða hjálp að ræða og jafnvel umtalsverðan sparnað ef rétt er að farið. Ég bendi á það t.d. að sjúkraþjálfari í starfi á heilsugæslustöð hefði það hlutverk með höndum að fara í hús og athuga aðstæður, leiðbeina við öflun hjálpartækja og alla aðstöðu. Þetta getur m.a. orðið til þess bæði að minnka sársauka og þjáningar fólks sem hefur slæmar aðstæður og einnig ef vel tekst til að létta á biðlistum. Ef fólk er með rétt hjálpartæki og aðstæður við hæfi þá á það einfaldlega ekki að þurfa á því að halda að fara í eins flókna meðhöndlun og fara eins illa og ella væri.
    Ég vil líka minna á tillögu okkar kvennalistakvenna um ráðningu sjúkraþjálfara í fræðsluumdæmi sem við höfum flutt á tveimur þingum en þar var sérstaklega tekið fram í þeirri umræðu að það væri e.t.v. heppilegra að vista slíka ráðgjöf sem slíkum sjúkraþjálfara væri ætlað að hafa með hendi hjá heilsugæslu frekar en hjá fræðsluumdæmum. Undir það get ég tekið. Meðal þeirra hlutverka sem sjúkraþjálfari sem hefði þetta hlutverk með höndum á heilsugæslustöð gæti haft er að fylgjast með vinnuaðstöðu skólabarna og veita ráðgjöf við innkaup á húsgögnum í skóla, að leiðbeina kennurum og nemendum um rétta líkamsbeitingu og þá í samráði við fleiri, að tengjast heilsugæslu skólabarna t.d. með því að taka þátt í skólaskoðun ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi og eiga samstarf við íþróttakennara vegna barna sem eru ekki í almennri leikfimi.
    Ég vil einnig taka það fram að sjúkraþjálfari við heilsugæslustöð þyrfti að fara í heimsókn á vinnustaði, athuga vinnuaðstæður, og það mundi spara veikindadaga þannig að hér er í rauninni um mjög skynsamlega ráðstöfun að ræða. Ég tek það fram að þarna er ekki um að ræða samkeppni við sjúkraþjálfara sem eru með einkareknar stofur þar sem þeir hafa fyrst og fremst það starf með höndum að meðhöndla en ekki að leiðbeina heldur er það hlutverk sem sjúkraþjálfari við heilsugæslustöð ætti að hafa að mínu mati. Því ber ég fram þessa fsp. Hvernig hefur til tekist að framkvæma þessa grein laga?