Ráðning sjúkraþjálfara við heilsugæslustöðvar

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:28:55 (4101)


[18:28]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint svohljóðandi fsp:
    ,,Hvernig hefur verið framfylgt ákvæðum 17. gr. heilbrigðisþjónustulaga, nr. 97/1990, um ráðningu sjúkraþjálfara til H2 heilsugæslustöðva og í öll heilsugæsluumdæmi Reykjavíkur?``
    Sá lagatexti sem hér er vitnað til er svohljóðandi:
    ,,Ráða skal sjúkraþjálfara til starfa við heilsugæslustöðvar H2. Í Reykjavík skal vera a.m.k. einn sjúkraþjálfari í hverju heilsugæsluumdæmi.``
    Ráðuneytið hefur kannað ráðningu sjúkraþjálfara bæði á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar í tilefni þessarar spurningar og niðurstaðan er þessi:
    Sjúkraþjálfarar eru starfandi við sjúkahús og heilsugæslustöð á Akranesi, sjúkrahús og heilsugæslustöð Ísafirði, sjúkrahús og heilsugæslustöð á Blönduósi, sjúkrahús og heilsugæslustöð á Sauðárkróki, sjúkrahús og heilsugæslustöð á Siglufirði, sjúkrahús og heilsugæslustöð á Húsavík, sjúkrahús og heilsugæslustöð á Neskaupstað, á Egilsstöðum, á Selfossi, í Vestmannaeyjum og sjúkrahús og heilsugæslustöð á Hvammstanga.
    Auk þess eru sjúkraþjálfarar starfandi við sjúkrahúsið á Akureyri, við Sólvang í Hafnarfirði, við Ríkisspítalana, Borgarspítalann og Landakotsspítala í Reykjavík, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og St. Fransiskusspítalann í Stykkishólmi.
    Enginn sjúkraþjálfari er ráðinn til starfa við heilsugæslustöðvarnar í Reykjavík og enginn sjúkraþjálfari er starfandi við heilsugæslustöðvar utan Reykjavíkur þar sem ekki er starfandi sjúkrahús. Eða með öðrum orðum eins og um getur í upptalningunni að framan að eingöngu í þeim tilfellum þar sem samrekstur eða samtengt húsnæði er milli sjúkrahúsa og heilsugæslustöðvar eru sjúkraþjálfarar í starfi.
    Það er því óhætt að fullyrða að betur má ef duga skal til að framfylgja þessum þætti heilbrigðisþjónustulaganna. Ég hygg hins vegar að skýringarnar á þessu séu allnærtækar, að við uppbyggingu kerfis heilsugæslustöðva hafi forgangsröðunin verið í þá veru að sinna kannski fyrst og síðast þeim frumþörfum sem til staðar eru, þ.e. þeim erindum sem á stöðvarnar koma frá sjúku fólki en heldur sett í aftari forgang að sinna þeim raunar mikilvæga þætti forvarnastarfs og leiðbeiningarstarfs sem lög segja til um að heilsugæslustöðvar hafi með höndum. Þessi þáttur heilgæslustöðvanna hefur þó farið vaxandi þótt hægt hafi farið á hinum síðustu árum og vænti ég þess að sú jákvæða þróun haldi áfram.