Ráðning sjúkraþjálfara við heilsugæslustöðvar

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:33:19 (4103)



[18:33]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Fram kom í svari hans og ég tek undir það að betur má ef duga skal og þarna eru allmargar heilsugæslustöðvar sem standa út af og úr því þarf að sjálfsögðu að bæta. Ég tek líka eftir því að þessi tenging við sjúkrahús leyfir manni að álykta það að þarna sé e.t.v. meiri áhersla á meðferðarstarf en fyrirbyggjandi starf. Það er að vísu mjög vel ef eitthvað er af forvarnastarfi en ég sé ekki að það sé t.d. hægt að hafa þá umfangsmiklu ráðgjöf og leiðbeiningar sem ég gat um í upphafsræðu minni með bæði sjúkrahús og heilsugæslu undir á sama stað og hjá sama sjúkraþjálfara. T.d. það frumkvæði sem þarf að koma varðandi skóla og vinnustaði, einkum úti á landi, þar sé ég að þar þarf í raun að bæta við og ég get ekki ímyndað mér að sjúkraþjálfari sem er bundinn við mjög brýna og nauðsynlega meðferð komist til þess að sinna nema að litlu leyti forvörnum.
    Varðandi þetta vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að hér tel ég að sé ekki bara um útgjöld að ræða heldur verulegan og veigamikinn sparnað í heilbrigðiskerfinu sem kæmi á endanum öllum til góða. Við vitum hvernig ástandið er með þá biðlista sem við sitjum uppi með. Oft má með einföldum aðgerðum bæta þar úr og ég veit að sjúkraþjálfarar hafa lagt mikla áherslu á að koma inn í þetta starf víðar en þeir gera nú.