Viðræður við Bandaríkin um fríverslun

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:39:26 (4106)


[18:39]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fsp. hv. 5. þm. Reykn. er rétt að minna á að í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar segir m.a. að haldið verði vakandi hugmyndum um gerð fríverslunarsamninga við Bandaríkin og Kanada og Kyrrahafslönd. Ríkisstjórnin fékk ráðrúm til að einbeita sér að þessu verkefni eftir að EES-samningurinn var efnislega kominn í höfn. Þess vegna var ákveðið í ríkisstjórninni í október 1992 að skipa starfshóp til að gera forkönnun á gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin. Í þessum starfshópi eru fulltrúar fimm ráðuneyta, utanríkis-, fjármála-, viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
    Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu í maí sl. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að fríverslunarsamningur við Bandaríkin sé vænlegur kostur og geti vel fallið að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Aðild að NAFTA, fríverslunarsamningi Norður-Ameríku, kemur einnig til álita.
    Starfshópurinn ráðgerir að skila af sér í þessum mánuði. Í kjölfarið reikna ég með að ríkisstjórnin taki afstöðu til málsins.
    Eftir er að láta reyna á það hvort Bandaríkin eru reiðubúin til viðræðna um gerð fríverslunarsamnings. Ég reikna ekki með að það geti orðið fyrr en eftir að Bandaríkjaþing hefur afgreitt nauðsynlegar lagabreytingar vegna GATT, væntanlega í haust. Þess er rétt að geta að það er ekki mikill viðskiptalegur hvati fyrir bandarísk stjórnvöld að gera slíkan samning við Ísland, það sem ekki er eftir miklu að slægjast á þessum dvergsmáa heimamarkaði. Hins vegar má ætla í kjölfar nýlegrar endurnýjunar á löngu og farsælu varnarsamstarfi þessara þjóða að engu að síður sé jákvæður pólitískur vilji til þess. Fordæmin eru ekki mörg um tvíhliða fríverslunarsamning af hálfu Bandaríkjanna við önnur ríki. Það er reyndar aðeins eitt ríki utan meginlands Ameríku, þ.e. Ísrael, sem hægt er að vitna til sem fordæmis í því efni.
    Ég minni á að við höfum náð að tryggja okkar mikilvægustu viðskiptahagsmuni með gerð fríverslunarsamninga við hátt í 30 ríki. Við höfum gert fríverslunarsamninga við 15 af 20 mikilvægustu útflutningslöndum okkar miðað við útflutningsverðmæti árið 1992. Þau fimm ríki sem eftir er að gera slíka samninga við eru fyrst og fremst Bandaríkin, Japan, Tævan, Nígería og Kanada. Ég tel eðlilegt að halda áfram á sömu braut og fríverslunarsamningur við Bandaríkin og Kanada væri mikilvægasti áfanginn í þeim efnum. Einmitt vegna þess að Evrópska efnahagssvæðið er ekki tollabandalag, hefur ekki sameiginlega viðskipta- eða tollastefnu er okkur í lófa lagið að leita slíkra fríverslunarsamninga við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta er hins vegar tafsamt verk, eðlisskylt mjög EES-samningnum. Við verðum að ætla að undirbúningur og gerð samningsins muni taka a.m.k. tvö ár, tvö til þrjú ár væri kannski varlegt að segja.
    En eins og ég segi er niðurstaðan og svarið við fyrirspurn hv. þm. það að þegar nefndin hefur skilað áliti og fyrir liggur að Bandaríkjaþing hefur afgreitt fylgilagasetningu NAFTA-samningsins, þá mun á það reyna hvort af þessu getur orðið.