Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 14:52:42 (4113)


[14:52]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst það mjög mikilvægt að þegar fjallað er um afstöðu flokka í svo mikilvægu máli sé það einmitt ályktunin sem slík sem er til umræðu en ekki skrif blaðsins jafnvel þó gott sé en lítið. Ég legg mikla áherslu á það að þingmaðurinn sem hefur bæði mjög mikinn áhuga og vit á þessum málum skoði ályktun Alþfl. í þessum málum. Eins og ég sagði áðan er það flokksstjórnin sem lýsir því yfir að stefna beri að gerbreytingu á fiskveiðistjórnuninni og sem fyrsta skref verði sérstaklega kannað að gefa frjálsar veiðar í þessa stofna. Ég mun að sjálfsögðu afhenda þingmönnum ljósrit af þessari ályktun vegna þess að það er hún sem við eigum að ræða en ekki skoðanir sem birast í skrifum blaðanna.