Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 15:00:49 (4117)


[15:00]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Austurl. að hagsmunir minni báta sem völdu kvóta á sínum tíma hafi allt of lítið verið ræddir, bæði á þeirra eigin vettvangi og eins í þingsölum. Það er mjög athyglisvert sem fram kom í máli hv. þm. að sú hugmynd að úthluta bátum undir 6 tonnum kvóta ef þeir veiddu tiltekið hlutfall umfram sinn úthlutaða afla sé ekki komin frá hv. þm. heldur væntanlega frá þeim samstarfsflokkum sem hv. þm. vann með á sínum tíma þegar hann var í ríkisstjórn. Og þá hlýtur maður mjög að velta því fyrir sér, ekki síst í ljósi þeirrar gagnrýni sem hugmyndin um að úthluta smábátum kvóta hefur fengið alveg sérstaklega frá ýmsum talsmönnum Alþb. og ýmsum talsmönnum Alþfl., hvort hv. þm. Halldór Ásgrímsson hafi á sínum tíma orðið að gera sérstaka málamiðlun við Alþfl. eða Alþb. um að setja þessa báta á kvóta, hvort það hafi á sínum tíma verið krafa frá Alþb. eða Alþfl. eða einhverjum öðrum að setja þessa báta á kvóta. Þá fer maður að velta ýmsu fyrir sér og þá fer að verða mjög fróðlegt og athyglisvert og mjög sérkennilegt að hlýða síðan á málflutning einstakra talsmanna tiltekinna stjórnmálaflokka ef það hefur verið þannig að hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur verið nauðbeygður að setja þessa báta undir þetta ákvæði sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæðinu í lögum um fiskveiðistjórnun. Þá er það kannski svo að hér hefur rangur maður verið hafður fyrir rangri sök, það hafi alls ekki verið hv. 1. þm. Austurl. sem hafi verið upphafsmaður að þessu, heldur hafi þetta verið sérstök úrslitakrafa frá Alþb., sérstaklega kannski formanni þess sem virðist vera farið að líða mjög illa undir þessari ræðu.