Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 16:23:07 (4122)


[16:23]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var rétt sem ég hélt fram í minni ræðu og hv. þm. Stefán Guðmundsson staðfestir nú, e.t.v. með því að horfa fram hjá því, að það var og það er kvótakerfinu að kenna hvernig komið er í sambandi við hugsanlega þátttöku sjómanna í kvótakaupum. Hvort það hafi í upphafi verið stefna Framsfl. að standa þannig að málinu lagði ég áherslu á í minni ræðu að hefði ekki endilega þurft að vera. En það hefur ekkert komi fram í þessari umræðu enn sem hefur tekið af öll tvímæli um það að ekki hefði verið stefnt að þessari niðurstöðu, enda staðfestir ráðuneytisstjórinn í sjútvrn. það. Það hefur ekki staðið á Alþfl. að standa gegn því að sett verði lög, þau ákvæði í samningi sjómanna og útgerðarmanna sem fjalla um bann við hugsanlegri þátttöku sjómanna í kvótakaupum. Það hefur ekki staðið á Alþfl. En það vekur athygli mína að hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem hefur áhuga á málinu, skuli ekki hafa lagt fram frv. til laga þessa efnis hér í þinginu. Honum er það heimilt, hann getur það eða leitað eftir því hvort það væru aðrir hv. þingmenn sem mundu vilja taka þátt í slíkum tillöguflutningi. Það er ekki gott að vera í pólitík með þeim hætti að benda á aðra en þora ekki sjálfur.