Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 18:03:53 (4139)


[18:03]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. gerir mikið úr hagkvæmni kvótakerfisins. Mig langar til að

biðja hann að útskýra fyrir mér og öðrum hv. þm.: Hvernig stendur því að afkastamesti hluti flotans, sem eru togarar upp í og yfir 500 tonn, hefur frá árinu 1983 ekki bætt neitt við afkastagetu sína þrátt fyrir að þessi hluti flotans hafi bætt mest við sig í vélarafli? Á árinu 1983 var afli á úthaldsdegi á togurum undir 500 tonnum 10,2 lestir en árið 1992 var hann 8,3, hafði minnkað um 2 tonn. Árið 1983 var afli á togurum yfir 500 tonn 11,8 tonn en árið 1992 var hann 11,9 tonn. Það munaði 100 kg. Nú kann að vera að einhverjum detti í hug: Er þetta ekki vegna þess að það er svo mikill aflasamdráttur? Nei, það er ekki þannig. Árið 1983 fiskaði þessi floti 346 þús. tonn en árið 1992 324 þús. tonn. Það munar ekki á heildarafla flotans nema 2% á þessu tímabili. Hvernig útskýrir hv. þm. fyrir okkur af hverju það hefur ekki orðið afkastaaukning og af hverju þessi hagkvæmni, sem hann er búinn að tala hér um dag eftir dag í sambandi við útgerðina, kemur ekki fram í afköstum flotans þegar um er að ræða sambærileg afköst í heildina hjá þessum hluta flotans eins og var þegar kvótakerfið var tekið upp.