Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 18:06:14 (4140)


[18:06]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nú er þetta mjög viðamikil og tæknileg spurning sem ég er ekki viss um að ég hafi gripið á þessum stutta tíma svo vel að ég geti svarað henni til hlítar. Hins vegar get ég sagt að það sem hefur verið að gerast í togaraflotanum er að við höfum séð frystitogara koma þar sem skráð stærð skipanna er ekki bara eitthvað sem tengist veiðunum heldur líka fiskvinnslunni. Og það þarf að sjálfsögðu að hafa það í huga. Síðan hafa ný skip sem hafa komið verið með stærri vélar heldur en þau eldri. En það breytir því ekki að ástand þorskstofnsins hlýtur náttúrlega að hafa áhrif á það hvað þessi skip eru að veiða eða ekki veiða. Og þegar við vorum að veiða, eins og á árunum 1982 og 1983, um 400 tonn af þorski þá skiptir það máli miðað við stöðuna eins og hún er í dag þegar veiðin er innan við 200 þús. tonn. Eða er hv. þm. mér kannski ekki sammála um að skipti nokkru máli hvort það veiðist meira eða minna af þorski?