Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 18:12:10 (4143)

[18:12]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Loksins, loksins, loksins er komið til umræðu frv. til laga um breytingu á stjórn fiskveiða. Eftir þessu hefur verið beðið mjög lengi. Þetta átti að vera forgangsverkefni hæstv. ríkisstjórnar en það hefur tekið hana þrjú ár að koma með þetta frv. fram og nú tala menn um að það sé lagt fram sem bráðabirgðamál.
    Þeir sem vinna við þessa atvinnugrein hafa ekki vitað hvað vændum var og fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa talað þvers og kruss í þessu máli. Þeir sem hafa þurft að endurskipuleggja hafa dregið það vegna þess að þeir hafa verið að bíða eftir skýrri stefnu og þess vegna haldið að sér höndum í mörgum tilvikum.
    Það er rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan að það er nauðsynlegt að það ríki festa í þessum málum. Og það væri fróðlegt að taka saman hvað stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar hafi kostað greinina og þjóðfélagið. Það eru ómældir peningar sem þetta stefnuleysi hefur kostað. Eins og hér hefur verið margítrekað, þá eru menn sammála um að þetta er mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og þessi grein er í kreppu. Hún er í kreppu vegna óvissunnar fyrst og fremst. Og það nægir að minna á nýafstaðið sjómannaverkfalli sem ég tel að hafi verið til komið vegna óvissunnar. Þessi óvissa ríkir reyndar enn því að alla vega hafa hv. þm. ekki heyrt hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að ganga frá þessum bráðabirgðalögum, en það fáum við að heyra á morgun.
    Við erum búin að heyra það æðioft hjá sjálfstæðismönnum og það voru vígorð þeirra í kosningabaráttunni að þeir yrðu að fá sjútvrn. Ég er búin að rifja þetta oft upp því að ég hef oft spurt mig: Til hvers? Jú, vegna þess að þeirra stefna var frá veiðum og vinnslu til markaðar og þetta endurtóku þeir í sífellu og gera reyndar enn. Og margir sjálfstæðismenn sem tala í sjávarútvegsmálum eru ekki enn þá farnir að útfæra þessa stefnu.
    Alþfl. hefur beint máli sínu sérstaklega til fyrrv. hæstv. sjútvrh., Halldórs Ásgrímssonar. Það er eins og þeir geri sér ekki grein fyrir því að þeir eru sjálfir í stjórnarsamstarfi og þurfa sjálfir að taka ábyrgð og þurfa sjálfir núna að gera það upp við sig hvort þeir ætla að standa að þessu frv. til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar. Nú verða menn að hugsa frá fortíð til framtíðar. Það er komið að þeirri stundu. Og enn ræða menn hér að eitt sé stefna og annað gjörðir. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson tók það sérstaklega fram að eitt sé stefna og annað gjörðir og það er kannski stefna Alþfl. að þeir hafi vissa stefnu en gera annað en þeir ætla.
    Enn á ný boða þeir veiðileyfagjald og óhefta sókn í nokkrar fisktegundir þar sem ekki hefur náðst sá afli sem hefur mátt veiða á sl. ári. En nú er aftur á móti frv. sem hér liggur frammi klappað og klárt og það er ekkert í því úr stefnu Alþfl. Og enn tala stjórnarsinnar út og suður í málinu og erfitt er að henda nokkrar reiður á því hvað menn vilja raunverulega. Ég tel þetta vera mikið ábyrgðarleysi hjá stjórnarsinnum. Og ég segi við þá sem vilja breyta stefnunni meira en hér er boðað: Því í ósköpunum tala þeir ekki skýrar? Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar er alger í þessu máli og það er sorglegt.
    Menn tala gjarnan um óréttlátt kerfi sem þurfi að breyta en hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að breyta því. Hér hefur m.a. verið spurt að því hvort núverandi kerfi treysti búsetu í landinu. Það er mjög mikilvægt að menn spyrji sig þessara spurninga og svari henni. Núverandi kerfi treystir ekki búsetu í landinu. En hvaða kerfi treystir búsetu í landinu þegar auðlindin er takmörkuð og takmarkað má veiða? Það er önnur spurning sem menn verða að svara. Mundi veiðileyfagjald treysta búsetu í landinu? Þetta er spurning sem alþýðuflokksmenn verða að svara. Mundi sóknarstýring treysta byggð í landinu? Ég sé ekki hvernig sóknarstýring ætti að treysta byggð í landinu því að það er alveg auðséð mál að ef sóknarstýring væri alls ráðandi, þá væru það þeir sem hefðu öflugustu skipin sem næðu þessu aflamarki. Og það er líka auðséð mál að ef sóknarstýringin væri ráðandi, þá mundi verða enn þá meira atvinnuleysi hjá fiskvinnslufólki vegna þess að sótt yrði á skömmum tíma og svo yrði stopp á milli. Þar yrðum við aftur komin til fortíðar.
    Við höfum margsinnis viðurkennt að það eru margir ókostir við kerfið og þó svo að þær brtt. sem hér liggja frammi komi eitthvað að gagni, þá eru áfram ókostir við þetta kerfi en menn hafa ekki bent á neitt skárra. Menn hafa bent á byggðakvóta. En ég held að það hafi komið fram í andsvörum hversu óútfærður þessi byggðakvóti er og það er gjarnan afgreitt með þeim hætti að sveitarstjórnarmenn geti séð um það að úthluta afla. Ég sem gamall sveitarstjórnarmaður mundi ekki treysta mér til að standa í þeim sporum að eiga að sjá um að deila og drottna yfir aflanum. Enda er búið að benda á rök hér margsinnis fyrir því að það eru engir sem gætu átt skip, það fengju engir lán fyrir þessum skipum ef þeir þyrftu að vera fastir með sínar aflaheimildir eftir úthlutunum einhverra örfárra sveitarstjórna.
    Ég hef sagt það áður að frv. sem er til umræðu breytir e.t.v. ekki mjög miklu. En margir áleitnar spurningar sækja á hugann um stöðu greinarinnar í dag. Hér hefur verið mikið rætt um það að veiðiheimildir færast á færri hendur. Það er að sumu leyti rétt að það eru færri og stærri fyrirtæki en voru fyrir nokkrum árum síðan. En menn hljóta líka að spyrja sig: Er eitthvert annað kerfi sem hamlar gegn því? Og menn hljóta líka að skoða: Hverjir eru eignaraðilar að þessum fyrirtækjum? Er það ekki almenningur? Menn hafa talað um hagræðingu, menn verða að sameinast og menn verða að hagræða. Og þegar menn hafa sameinast og hagrætt þá segja sömu aðilar: Þetta eru orðnir of stórir aðilar og þetta gengur ekki. Þarna hafa heimildir færst á of fáar hendur. En hvaða fyrirkomulag getur komið í veg fyrir það? Það eru spurningar sem menn verða að svara sem telja að allt annað sé betra en það sem er án þess að koma þó með ákveðnar tillögur.
    Ég tel að veiðileyfagjald t.d. kæmi ekki í veg fyrir það nema síður væri. Ég gæti ímyndað mér að ef veiðileyfagjald yrði sett á yrði kannski eitt öflugt sjávarútvegsfyrirtæki á landinu. Það er ótrúlegur tvískinnungur í þessari umræðu. En af hverju er staða sjávarútvegsins jafnslæm og raun ber vitni? Hún er slæm. Við viðurkennum að hún er slæm. Fyrst verðum við að skoða hvað gengur vel í sjávarútveginum. Rekstur frystitogara gengur vel. Rekstur skipa sem eru eingöngu í útflutningi eða selja beint á markaði gengur líka vel. Og rekstur nokkurra smærri báta sem eru með sæmilega aflaheimild gengur líka vel. Í þessu sambandi langar mig að minnast þess að ég las í Frjálsri verslun ekki alls fyrir löngu viðtal við útgerðaraðila í Hafnarfirði sem fengu verðlaun Útflutningsráðs vegna góðrar afkomu síns fyrirtækis. Þetta var mjög athyglisvert viðtal við hjónin sem reka þessa myndarlegu útgerð sem gengur mjög vel. M.a. sögðu þau í viðtalinu að gæfa fyrirtækisins væri sú að þau voru ekki með fiskvinnslu í landi.
    Eins og allir vita er fiskvinnslan okkar stóriðja og þarf að vera okkar stóriðja og við verðum að treysta stöðu þessarar stóriðju okkar. Við verðum að treysta vinnsluna í landi. Við hljótum að þurfa að svara þeirri spurningu: Hvernig stendur á því að fiskvinnslan gengur almennt svona illa í landi? Það eru mörg svör við því. Það eru mjög miklar kröfur gerðar um tæknibúnað í landi og frystihús almennt hafa verið að aðlaga sig EB-markaðnum. Það eru miklar tæknikröfur og miklar hreinlætiskröfur og miklar kröfur gerðar á þeim markaði og það hefur verið fjárfest mikið. En það eru allt önnur lánakjör til frystihúsa en til skipa. Fullvinnslan í landi, sem flestir telja vera okkar framtíð í fiskvinnslu, er dýr og við nýtum þau tæki illa sem fjárfest hefur verið í vegna þess að við erum ekki komin með vaktir í fiskvinnslunni í landi.
    Ég talaði um lánakjörin sem eru ekki hagstæð og vextirnir allt of háir. Þeir hafa verið skuldugri fiskvinnslu afar óhagstæðir. Orkugjöld eru allt of há og það er endalaust verið að hækka hafnargjöld og það er verið að setja aukahafnargjöld á frá ári til árs. Þetta eru gjöld sem koma sérstaklega illa við fiskvinnsluna því að þar er bara reiknað eftir magni en ekki reiknað eftir því hvað fæst fyrir afurðina. Og það sem íþyngir fiskvinnslunni mjög eru tryggingagjöldin. Þó svo aðstöðugjaldið hafi verið lagt af, þá eru tryggingagjöldin orðin hærri en aðstöðugjöldin voru og fyrir áramót var enn verið að hækka tryggingagjaldið. Við erum í vítahring varðandi tryggingagjöldin vegna þess að þau eiga m.a. að greiða laun þeirra aðila sem verða gjaldþrota. Þeir sem enn þá lafa og lifa eru að borga fyrir gjaldþrotin og það er alveg eins með vextina. Þeir sem enn þá lafa eru að borga svona háa vexti vegna þess að bankarnir eru að tapa svo stórum upphæðum á gjaldþrotunum. Svo er sífellt sungið að EES muni bjarga þessu öllu saman og við eigum svo mikla möguleika varðandi EES.
    Ég hef aldrei gert lítið úr því að við eigum ýmsa möguleika varðandi hið Evrópska efnahagssvæði. En við eigum enga möguleika ef við tökum ekki alvarlega á því og skoðum okkar samkeppnistöðu sem er slæm. Ef við skoðum ekki nákvæmlega þá samkeppnisstöðu sem við stöndum frammi fyrir í frystingunni, þá eigum við enga möguleika á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þar er búið að skipa margar nefndir, m.a. til að endurskoða lög um stjórnun fiskveiða, en mér finnst vera kominn tími til, og mér er alveg sama hve mörg höfuð eru á þeirri nefnd, að að þeirri nefnd og endurskoðun komi þeir sem eiga allt sitt undir, þ.e. fiskvinnslufólk, sjómenn, útgerðaraðilar, sveitarstjórnarmenn og fulltrúar ríkisvaldsins og spyrji: Hvernig við getum gert okkar stóriðju samkeppnisfæra? Erum við virkilega að leggja einhver þau gjöld á þessa grein að hún geti ekki borið þau? Mér finnst löngu kominn tími til þess.
    Því miður er engin sátt um sjávarútvegsstefnuna og hún verður ekki nema þeir aðilar, sem ég hef hér áður upp talið, fái að koma að þessu máli. Ég ætla ekki að þreyta menn með því að fara aftur yfir þær breytingar sem hér eru boðaðar. Það gerði hv. þm. Halldór Ásgrímsson fyrir hönd okkar framsóknarmanna og ég veit að þeir nefndarmenn sem eru í sjútvn. munu kalla þá aðila til sem nauðsynlegt er að kalla til sem eiga sitt undir því að þarna sé farin sú málamiðlunarleið sem þarf að fara. En ég endurtek að það er nauðsynlegt að menn fari að skoða samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar sem er afar erfið en þar er einmitt okkar stórðja. Þar er vinna fyrir fjölda manns og mér finnst hafa verið gert allt of lítið af því og allt of lítið hugsað um það hvernig við getum tryggt áframhaldandi rekstur frystihúsa hér á landi. Ég segi það vegna þess að þrátt fyrir að fyrirtæki hafi orðið gjaldþrota, segjum fyrirtæki sem er fullkomlega uppbúið, ég gæti til staðfestingar bent á ákveðið fyrirtæki sem er tæknilega fullkomið og hefur orðið gjaldþrota, og búið að þurrka af því allar skuldir er samt ekki nokkur aðili sem treystir sér til að reka það fyrirtæki ef það þarf að kaupa fisk af mörkuðunum. Það er eitthvað að þegar svo er komið. Og af því að menn hafa oft rætt um að það væri kannski ein leiðin að allur fiskur færi á markað, þá held ég að menn ættu að skoða það hvers konar tilfærsla á afla það væri. Það kynni að vera að það yrði aðeins á fáeinum stöðum á landinu sem væri unninn fiskur ef það væri skylda að allur afli færi á markað. Ég vara við því.