Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 18:30:48 (4144)


[18:30]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt að það sé aðeins hér í byrjun rifjað upp hvernig mál þetta hefur borið að og hvaða sögu það á sér í gegnum vinnu hæstv. ríkisstjórnar að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Eins og kunnugt er voru þessi lög síðast afgreidd á Alþingi á vormánuðum 1990 og þá með málamiðlun og samkomulagi sem gekk út á nokkur aðalatriði, þar á meðal breytingar á lögum um Hagræðingarsjóð, en ekki síður þó að samkomulag tókst þá um það að setja lögin í heildarendurskoðun með ákvæðum sem áttu að tryggja aðild allra flokka að þeirri endurskoðun, tryggja samráð við sjútvn. Alþingis og hagsmunaaðila í þeirri endurskoðun og tryggja að þeirri endurskoðun yrði lokið á tveimur árum, þ.e. fyrir árslok 1992 skyldi hafa farið fram með þessum hætti heildarendurskoðun málefna sjávarútvegsins eða laga um stjórn fiskveiða.
    Staðreyndin er hins vegar sú að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur haldið ákaflega óhönduglega á því máli og uppskorið í samræmi við það. Því var strax spáð að ríkisstjórnin væri að reisa sér hurðarás um öxl þegar hún hafnaði þverpólitísku samstarfi um þetta verkefni, kaus að manna starfsnefnd sína eingöngu stjórnarliðum jafnmörgum úr hvorum flokki eða þar um bil og velja svo nefndinni þar á ofan það óvenjulega forustumunstur að formenn hennar yrðu tveir, en það hefur jafnan þótt hæpið að hafa tvö stýri og tvo skipstjóra í brúnni. Útkoman varð auðvitað eftir þessu, í fyrsta lagi náði stjórnin náttúrlega ekki fram þessu verkefni á þeim tíma sem tilskilinn var og það er rétt að minna á það að þrátt fyrir þetta lögbundna ákvæði um endurskoðun, að henni skyldi ljúka fyrir árslok 1992, þá erum við nú hér að ræða þetta mál við 1. umr. 15. febr. 1994, 14 mánuðum næstum að segja á eftir áætlun. Og þá er auðvitað augljóst mál að mikil vinna er fyrir höndum áður en lögfestar verða einhverjar endanlegar niðurstöður í þessum efnum. ( Gripið fram í: Án samráðs.) Látum það nú vera þó að þessi dráttur hefði orðið á málinu sem er að sönnu bagalegur því að hann veldur óvissu hjá fyrirtækjunum o.s.frv. Hitt er öllu verra að um niðurstöðuna er engin pólitísk samstaða, hvorki pólitísk í þeim skilningi að allir stjórnmálaflokkar hafi átt aðild að verkinu og standi að því og ekki heldur pólitísk í þeim skilningi eða fagleg að helstu hagsmunaaðilar málsins séu ánægðir með niðurstöðuna og standi að henni. Hvorugt er fyrir hendi. Reyndar nær samstöðuleysið eða sundrungin svo langt að í röðum stjórnarflokkanna sjálfra, sem hafa þó einir setið að verkinu, er bullandi ágreiningur um málið. Frv. sem hér liggur fyrir er lagt fram með fyrirvörum af hálfu stjórnarflokkanna og einstakra þingmanna þeirra. Það liggur fyrir. Meira að segja hæstv. ráðherrar eins og umhvrh. hafa lýst fyrirvörum á málinu.
    Það er því ekki hægt að segja annað en það sem liggur fyrir, hæstv. forseti, að hér hefur tekist hörmulega til, vægast sagt óhönduglega og málið er í allt annarri og verri stöðu en það hefði að mínu mati þurft að vera. Ábyrgðina af þessum vinnubrögðum ber hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ríkisstjórn ein. Hún hefur meira að segja gengið svo langt að hundsa lögbundið samráð við sjútvn. Það hefur nánast ekkert verið og það litla sem um er að ræða hefur verið vegna þess að sjútvn. sjálf hefur krafist upplýsinga eða dregið til sín upplýsingar um málið, ekki á hinn veginn að hún hafi verið upplýst eða höfð með í ráðum. Þannig er það að þrátt fyrir það að nú sígi mjög á seinni helming þessarar ríkisstjórnar, sem betur fer og öll þjóðin fagnar því, hefur hún nánast engu komið fram enn sem komið er í sjávarútvegsmálum. Þriggja ára afmælið er nú fram undan í maímánuði næstkomandi og það er staðreynd að hæstv. ríkisstjórn hefur enn sem komið er nánast ekki náð saman um, hvað þá heldur afgreitt hér eða komið í gegn nokkru sem máli skiptir og varðar grundvallarstarfsskilyrði eða löggjöf sjávarútvegsins. Þetta er einfaldlega staðreynd. Menn geta rætt það lengur eða skemur, svona er staðan.
    Það sem gerst hefur á þessum tíma ber keim af þeirri óvissu sem þetta hefur valdið. Fyrirtækin hafa enga heildarlöggjöf til að miða við þegar þau taka sínar ákvarðanir um fjárfestingu eða uppbyggingu og fullkomin óvissa ríkir og það er auðvitað bagalegt svo ekki sé meira sagt. Þróun sjávarútvegsins verður eðlilega við þessar aðstæður tilviljanakennd. Menn eru að spila póker við blindan og vita ekki hverju þeir eiga að mæta í formi undirstöðulöggjafar greinarinnar þegar þar að kemur. Gott dæmi um þetta er til að mynda sú handahófskennda og tilviljanakennda þróun sem átt hefur sér stað í flutningi fiskvinnslunnar út á sjó sem reyndar er kannski að meira leyti neyðarráðstöfun vegna bágrar afkomu heldur en endilega að menn telji það æskilega þróun að öllu leyti í sjálfu sér. Engin stefna sem hægt er að kalla heildstæða hefur verið mótuð og er það þó tekið fram sérstaklega í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar að eitt meginverkefni hennar skuli vera að móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Það er langur vegur frá því að hægt sé að kalla þessi ósköp sem enn hafa komið frá hæstv. ríkisstjórn einhverjar tillögur í þá átt. Hér ef fyrst og fremst lagt til að framlengja í grófum dráttum lífdaga óbreyttrar stjórnunar fiskveiða þrátt fyrir alla þá annmarka sem mönnum eru ljósir á því kerfi, þrátt fyrir þá gagnrýni sem það hefur svo sannarlega fengið á sig og þrátt fyrir þá óeiningu sem um framkvæmdina er við mikilvæga hagsmunaaðila eins og sjómannastéttina og byggðarlögin í landinu, svo nokkuð sé talið.
    Ef farið er yfir það, hæstv. forseti, hverjir eru kannski helstu ágreiningsþættirnir sem í þessu máli vaka eins og þeir koma ræðumanni fyrir sjónir, þá mundi ég í fyrsta lagi segja að það væri ósköp einfaldlega sú ójafna réttarstaða sem kerfið felur í sér og hefur frá upphafi falið í sér. Ef við stillum því upp

hverjir séu meginhagsmunaaðilar sem aðild eiga að starfrækslu íslensks sjávarútvegs í dag og hafa lengi verið, þá er það í grófum dráttum eftirfarandi:
    Það er í fyrsta lagi útgerðin, eigendur og rekstraraðilar skipanna. Enginn deilir um það. Það er í öðru lagi sjómannastéttin því að lítið yrði um útgerð á Íslandi ef ekki væru sjómenn til að manna skipin. Það er í þriðja lagi fiskvinnslan í landi og byggðarlögin. Og það er í fjórða lagi, nátengt þessum aðilum, landvinnslufólkið, fiskvinnslufólkið sjálft.
    Þannig má segja að þarna séu fjórir eða fimm stórir meginhagsmunaaðilar sem að greininni standa og eru í raun allir jafnómissandi hluti af henni af nýtingu verðmætanna á Íslandsmiðum. Á bak við stendur svo að sjálfsögðu þjóðarbúið allt og allur íslenski þjóðarbúskapurinn sem stendur og fellur með sjávarútvegi, gjaldeyrissköpunin auðvitað ekki síst, en enn er svo komið að sjávarútvegurinn íslenski er í grófum dráttum í sömu sporum og hann var fyrir 30 árum, að hann stendur undir 80% af gjaldeyrissköpun þjóðarinnar.
    En hvernig er kerfið í reynd gagnvart þessum fjóru stóru hagsmunaaðilum? Það er þannig að einum aðila eru úthlutuð réttindin: Útgerðinni. Einn af þessum fjórum stóru hagsmunaaðilum hefur í raun og veru öll spilin á hendi, trompin sín megin, leyfi til að nýta auðlindina. Og nú geta menn rætt um það hvort hægt væri yfir höfuð og raunhæft að koma þessu einhvern veginn öðruvísi fyrir. Ég er ekki í sjálfu sér að úttala mig um það. Ég er eingöngu að benda á það að svona liggja spilin. Svona voru þau gefin. Og þetta hlýtur að hafa afgerandi áhrif á samskipti þessara aðila. Enda er það reyndin að í fyrsta lagi er sjómannastéttin meira og minna að sameinast gegn ákveðnum þáttum þessa fyrirkomulags. Í öðru lagi er það mjög mismunandi hvernig þetta kemur niður gagnvart fiskvinnslunni. Fiskvinnslan í heilum byggðarlögum er að deyja út vegna tilfærslu veiðiheimilda. Í þriðja lagi er þá landverkafólkið, fiskvinnslufólkið ofurselt framkvæmd þessa kerfis, á örlög sín undir því, atvinnu sína og eignir sínar í þeim byggðarlögum sem það hefur sett sig niður. Og í fjórða lagi eru það byggðarlögin sjálf sem sum hver standa þannig að vígi í dag vegna tilfærslu veiðiheimildanna að þeim eru nánast allar bjargir bannaðar. Byggðarlög, sem hafa risið upp við sjávarsíðuna á Íslandi af því að þau lágu vel við miðum, af því að þar var fólk sem vildi setja sig niður og nýta sjóinn, vakna allt í einu upp við það einn góðan veðurdag á Íslandi að rétturinn til þess að halda áfram þeirri atvinnustarfsemi, sem viðkomandi byggðarlag hefur snúist um um áratuga skeið, er horfinn. Hann hefur siglt út um hafnarkjaftinn með skipi sem var selt í burtu á nauðungaruppboði. Og það er hægara að segja það heldur en að gera það að ráða bót á því í byggðarlagi þar sem allt er rjúkandi rúst. Við þekkjum dæmin. Hvernig standa Bíldudalur og Patreksfjörður í dag? Hvernig stendur lífsbarátta Bolungarvíkur? Það er ekki bjart um að litast þar. Og ætla menn þá virkilega að koma hér og segja að þetta kerfi hafi að öllu leyti tekist vel, að það séu ekki fólgnar í því hættur, samfara því ágallar sem menn verða að horfast í augu við. Ég segi: Það er furðulegur málflutningur. Og ég gef ekki mikið fyrir það hvort sem það eru hv. þm. Framsfl. sem hér hafa talað eða hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem kemur og segir: Það þýðir ekkert fyrir ykkur að ræða þessa hluti af því að þið hafið ekki bent á eitthvað betra. Af því að það er ekki hérna tilbúið fullkomið kerfi, ágallalaust til að taka við í staðinn, þá skuluð þið ekki vera að tala um þessi mál. Það er ekki merkilegur málflutningur. Ef menn þora ekki að horfast í augu við áhrifin af því stjórnkerfi sem við búum við, ræða ágallana og tala saman um það hvort hægt sé að finna leiðir til að betrumbæta það, þá komast menn ekki langt. Þá er á ferðinni það sem ég tel að hafi allt of mikið einkennt umræðuna um þessi mál þau 10 ár sem hún hefur staðið og hef ég fylgst vel með henni því að ég var nýliði hér á þingi á því merka þingi 1983--1984 þegar kvótinn var í fyrsta skipti afgreiddur.
    Ég tel að menn hafi um of rætt þetta út frá forsendum kerfisins, að málið snerist um að velja kerfi en ekki um það að reyna að finna þá framkvæmd, þá tilhögun þessara mála hvort sem hún héti eitt eða annað kerfi sem gæfist best. Ekki um það að læra af reynslunni. Ekki um það að þora að prófa nýjar aðferðir heldur að vera með eða á móti kerfi. Ég hef aldrei verið með eða á móti kerfi í þessu máli. Ég hef aldrei tekið trú á aflamarkskerfið, ég hef heldur ekki hafnað því. Ég vil frábiðja mér það að þurfa að ræða hlutina á svo einfölduðum forsendum.
    Ég spyr t.d. að því þegar menn neita því alfarið og telja það ekki ganga upp að gefa sókn frjálsa í tegund eins og loðnu þegar 2--3 vikur lifa eftir af vertíð. Loðnan er að hrygna og drepast hundruðum þúsundum tonna saman. Það er ljóst að stofninn þolir þessa sókn, en menn neita samt að leyfa kannski afkastamiklum skipum sem eru búin með sinn kvóta að mala þjóðarbúinu áfram gull og halda áfram til loka vertíðar. Af hverju? Af því að kerfið segir nei. Þá eru menn að velja hagsmuni kerfisins fram yfir veruleikann, fram yfir þjóðarhagsmuni, fram yfir röksemdir skynseminnar. Það er þannig. Og það kerfi sem þarf á slíkum ósveigjanleika að halda til að viðhalda sjálfu sér er komið út í ógöngur. Það vantar í það sveigjanleika. Það vantar aðlögun að veruleikanum sem blasir þá við. Ég held að gagnvart svona hlutum verði menn að rífa sig upp úr þessum hjólförum kerfishyggjunnar og þora að horfa á hlutina eins og þeir eru.
    Ég tel að aflamarkið búi yfir mörgum miklum kostum og ef betur hefði tekist til með framkvæmd þess, meiri viðleitni hefði ríkt á undanförnum árum til að taka jafnóðum á ágöllunum og mæta ólíkum hagsmunum sem þarna togast á, þá gætum við verið mikið betur á vegi stödd í dag með fiskveiðistjórnunarfyrirkomulag sem miklu meiri sátt væri að nást um. En eins og þetta stendur í dag, þá er barnaskapur og óraunsæi að neita því ekki að um þetta mál er mikil óeining. Þrátt fyrir 10 ár hefur ekki tekist að ná þjóðinni saman um þá skoðun að þetta sé í góðu lagi eins og það er og það eigum við þá að viðurkenna og

horfast í augu við --- alveg burt séð frá því hvort menn eru meira eða minna trúaðir á þetta fyrirkomulag eða eitthvað annað. Liggur það ekki ljóst fyrir að við hljótum hér eftir sem hingað til að byggja fyrirkomulag þessara mála á einhverjum málamiðlunum ólíkra sjónarmiða? Ég hef enga trú á því að sú framtíð blasi við okkur á næstu árum, mér liggur við að segja á næstu áratugum, að einhver einn aðili muni hafa fullan sigur og keyra sitt kerfi ofan í hausinn á öllum hinum. Það mun ekki gerast þannig, hvorki pólitískt, faglega né gagnvart hagsmunaaðilum. Skipulag fiskveiðistjórnunar verður málamiðlun ólíkra hagsmuna og ólíkra sjónarmiða á næstu árum eins og það hefur verið. Spurningin snýst þess vegna um það að reyna að ná þarna sem sanngjarnastri niðurstöðu sem sem víðtækust sátt getur orðið um. Og því miður er þetta frv., hæstv. forseti, að mínu mati ákaflega skammgóð lausn í þeim efnum og að sumu leyti er boðað að halda skuli lengra út í ófæruna. Það er til að mynda ljóst að hér er ekki gerð nein minnsta tilraun til að leysa úr þeim vandamálum sem tilfærsla veiðiheimildanna hefur skapað og óánægjan og gagnrýnin sem í kringum það hefur myndast. Og er það þó næsta furðulegt í ljósi þeirra deilna og allsherjarverkfalls m.a. sem af þeim hlutum hefur sprottið á undanförnum mánuðum.
    Spurningin er sú í mínum huga í ljósi þess sem ég sagði um aðdraganda málsins hvort Alþingi Íslendinga og sjútvn. ber þá gæfu til að taka þessi mál þannig til sjálfstæðrar skoðunar, óháð þeirri vinnu sem fram hefur farið á vettvangi ríkisstjórnar og burt séð frá fortíðinni, hvort menn eiga meiri eða minni aðild að þessu sem kvótasinnar eða kvótaandstæðingar, að fram fari raunveruleg og heiðarleg tilraun til þess að mynda slíka samstöðu og taka á þessum málum, setja t.d. þær reglur um tilfærslu veiðiheimildanna á meðan eða ef aflamarkið sem slíkt verður við lýði að um það geti skapast eitthvað meiri sátt. Taka þannig á stöðu byggðarlaganna í þessum efnum að það gerist ekki að heil byggðarlög eða jafnvel heilir landshlutar sitji allt í einu uppi þannig að réttur þeirra til tilvistar hafi í raun og veru verið seldur frá þeim. Það getur ekki gengið. Það er þá tilgangslaust að vera að tala um eitthvað sem heitir byggðastefna eða sanngirni í þessum efnum. Ég segi fyrir mitt leyti að tilbúinn væri ég til þess að setja þannig niður vinnu að menn gætu einhent sér að því --- þess vegna þó að það tæki allan veturinn, allt vorið og fram á mitt sumar, fram á haust --- að gera þessa alvörutilraun af því að hún hefur ekki farið fram. Hún hefur því miður ekki farið fram enn þá, heldur hafa menn svona skáskotið sér fram hjá ágreiningsefnunum, einangrað þetta í sínum þrönga hópi. Það hefur verið haldið áfram þó að heil hagsmunasamtök eins og sjómannastéttin klyfi sig út úr starfi tvíhöfða nefndar eða öllu samráði á sl. vetri, þá var látið sem ekkert væri, nefndin skilaði sínum niðurstöðum og því fór sem fór. Það lá fyrir frá upphafi, frá útkomudegi tvíhöfða álitsins lá það fyrir að sjómannastéttin gat ekki sætt sig við þessa niðurstöðu.
    Það liggur enn fremur fyrir að menn eru fjær því en þeir hafa kannski verið um langt árabil að ná nokkru landi með eitthvað sem gæti heitið heildstæð sjávarútvegsstefna. Hún er enn fjær. Á meðan upplausn ríkir gagnvart jafnvel því hvernig næstu ár hvað fiskveiðistjórnunina sjálfa snertir skuli líta út þá þýðir víst lítið að tala um einhverja heildstæða sjávarútvegsstefnu þar sem nýtingin, vinnslan, fullvinnslan og skipulagið væri tekið inn í að einhverju marki. Er þó að nógu að hyggja í þeim efnum sem og markaðshagsmunum Íslands í hinum flókna heimi sem þar er upp runninn og síbreytilegir.
    Margt fleira kallar líka á endurmat á okkar áherslum í þessum efnum. Ég nefni þá staðreynd að brýn þörf kallar á endurmat og stefnumótun fyrir okkur Íslendinga sem strandveiðiþjóð og úthafsveiðiþjóð og hvaða áherslur við ætlum að leggja í þeim efnum, hvernig menn ætla að taka á stóraukinni sókn út fyrir landhelgina, hvernig við ætlum að nýta okkur þá möguleika, hvernig við ætlum að bregðast við þátttöku Íslendinga í útgerð undir erlendum fánum og auknum hagsmunum sem við eigum nú að líta til sem úthafsveiðiþjóð.
    Ég tel líka að það beri brýna þörf til þess að huga að nýsköpunarmálum greinarinnar í stað þess að leggja hér fram löngu úrelt frv. um einhvern samdráttarsjóð sjávarútvegsins þar sem bera á fé á menn til þess að draga sem allra mest saman í sjávarútvegi á Íslandi, eins og það sé nú það sem við þurfum mest á að halda, í staðinn fyrir að beita öllum tiltækum ráðum til að nýta fyrirliggjandi fjárfestingu og flota eins og nokkur kostur er til að auka verðmætasköpun í greininni með sókn á fjarlæg mið, með aukinni fullvinnslu o.s.frv. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi því miður ekki haft gott af sambúðinni í þessari ríkisstjórn við ýmsa menn, svo sem eins og Alþfl. Hann hafi gefið allt of mikið eftir í samskiptum við þann flokk og bognað í bakinu þannig að dapurlegt sé, t.d. í samningum við Evrópubandalagið og svo mikið fyrir EES eins og það er nú að reynast okkur þessa dagana í Frakklandi. Ég tel að hann hafi gefið allt of mikið eftir gagnvart til að mynda hugmyndum eða áformum um auðlindagjald í tengslum við svokallaðan þróunarsjóð sem á að leggja á sjávarútveginn frá og með árinu 1996.
    Margt fleira mætti um þetta segja, hæstv. forseti, en ég ætla tímans vegna að stytta mál mitt þannig að fleiri komi sínum sjónarmiðum að fyrir kvöldmatarhléið. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan. Mér finnst ekki aðalatriði málsins nú vegna þess hvernig það er fram komið, þetta frv., að ræða hin einstöku efnisatriði þess, heldur spurningin: Eru hér forsendur til þess, er hér vilji til þess að setja í gang og fara í gegnum alvörutilraun til að móta einhverja heildstæða sjávarútvegsstefnu og fiskveiðistefnu sem gera þarf? Er vilji til þess? Er áhugi fyrir því eða ekki? Ef meiningin er að láta þetta frv. bara liggja í salti í sjútvn. í nokkrar vikur og keyra svo hér í gegn í mars eða aprílmánuði óbreytt hrossakaup stjórnarflokkanna, þá er einfaldast að horfast í augu við það strax og þá er það að mínu mati tímasóun að vera að mikið að velta þeim hlutum fyrir sér í sjútvn. vegna þess að þá er þar ekki á ferðinni á nokkurn hátt sú heildarendurskoðun laga um málefni sjávarútvegsins sem ákveðið var að ráðast í og lofað var á sínum tíma, heldur fyrst og fremst minni háttar breytingar á óbreyttu fyrirkomulagi sem er þá niðurstaða af hrossakaupum ríkisstjórnarinnar.
    Ég hef skilið það svo að hv. þm. stjórnarinnar teldu sig í raun og veru óbundna af framlagningu þessara frumvarpa, teldu sig hafa svigrúm til að taka þátt í þessu vegna umræðu um og skoðun á gjörbreytingu á þessu máli hvort sem það lýtur að smábátum, tilfærslu aflaheimilda eða jafnvel sjálfum grundvelli fiskveiðistjórnunarkerfisins. Ef svo er og það fæst staðfest hér í umræðunni, þá vona ég svo sannarlega að hugur fylgi máli og menn séu þá tilbúnir til að taka þá vinnulotu sem hefði þurft að standa undanfarin ár en ekki fyrst að vera að hefjast nú og ætlunin var á sínum tíma, 1990, að fælist í ákvæðum til bráðabirgða um heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar sem þá voru lögfest en því miður fóru í annan farveg eins og kunnugt er í pólitískum helmingaskiptum hæstv. ríkisstjórnar.