Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 19:40:29 (4149)


[19:40]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Spurningin er þessi og eitt af meginmarkmiðum fiskveiðistjórnunarinnar er það hvort það stjórnunarkerfi sem við búum við í dag hafi náð því markmiði að styrkja vöxt fiskstofnanna. Það er eitt af meginmarkmiðum núverandi kerfis eftir að það tókst ekki með sóknarmarksleiðinni og þess vegna var farið í aflamark til þess að okkur tækist fremur að ná því markmiði. Þingmenn Alþfl. hafa hér haldið því fram, a.m.k. tveir, að þetta markmið stjórnunarinnar hafi ekki náðst. Samt hvetja þeir, ásamt hæstv. viðskrh. og fleirum, til þess að stórauka sókn. Hvernig má þetta ganga? Í mínum huga gerir það það alls ekki.