Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 19:41:54 (4150)


[19:41]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson spyr hvers vegna við leggjum til, og þá undirritaður, að aflinn verði aukinn. Ég svaraði því í minni ræðu. Það er vegna þess ástands sem er í byggðunum frá Snæfellsnesi og vestur um land allt til Húnaflóa. Þar er kvótinn að verða búinn og það verður að taka um þetta pólitíska ákvörðun. Það hagar þannig til til sjávarins núna að það er meiri fiskgengd heldur en verið hefur í langan tíma á þessu svæði, sem sannast best á því að afli á útgerðarstöðunum á Vestfjörðum er núna um 150--170 kg á bjóð á móti því að vera 70--80 kg á síðasta ári og árinu þar áður. Þess vegna legg ég þetta til sem pólitíska aðgerð. Ég er ekki sannfærður um að fiskveiðistofninn þoli það. Þess vegna er ég líka sannfærður um að við höfum ekki ná því markmiði að vernda stofnana eins og við ætluðum með þessu stjórnunarkerfi sem við notum. Ég er ekki tilbúinn að benda á aðra leið en ég tel að við þurfum að snúa frá þessu kerfi. Ég vitnaði til Nýfundnalendinga áðan þar sem þeir beittu nákvæmlega sama kerfi og standa núna uppi með dauðan sjó.