Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 19:43:32 (4151)


[19:43]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það eru vissulega gleðilegar fréttir sem maður hefur af hafinu frá ýmsum sjómönnum. Ég ætla ekki að gerast dómari í því, en margir halda því fram að það sé um aukna fiskgengd að ræða og kom hér fram í máli hv. þm. að svo væri. Ég vil trúa því að svo sé og ég trúi því einnig að það sé að stórum hluta til vegna stjórnunar sem tekið hefur verið upp í fiskveiðum. En ég segi: Við Íslendingar höfum þraukað og mátt þola kvalir í þessu og ég held að það væri mikil ógæfa að á fyrstu dögum eða nánast fyrstu vikum þess sem við verðum þess áskynja að stofnarnir séu að rétta við, þá gerum við strax kröfuna um það að herða sóknina í stað þess að reyna að þrauka aðeins lengur og njóta þessarar ávöxtunar. Ég kem að því síðar í máli mínu í kvöld eða nótt, að það er ekki sanngjarnt að kenna kvótanum og stjórn fiskveiða um ástandið eins og það er. Það er ekki heila málið. Það er alls ekki svo einfalt mál að það sé hægt að kenna því um. Það er svo miklu fleira sem kemur til og ekki síst þeir afkomumöguleikar sem greininni hafa verið skapaðir. Það er ekki síst sú ástæða sem veldur hinum hörmulegu gjaldþrotum sem nú ríða yfir og eins og ég hef sagt áður, ríkisstjórnin virðist vera búin að finna upp eitthvert eilífðarhjól á þessari gjaldþrotabraut.