Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 19:45:25 (4152)


[19:45]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta verður ekki langt. Ég get lýst því hér að ég er ekkert mjög ósammála hv. þm. Stefáni Guðmundssyni um að það sé ekki endilega fiskveiðistjórnunarkerfið sem hefur skilað þessu til okkar. Það eru auðvitað aðstæður í hafinu sem skila okkur þessu að mjög miklu leyti og þar held ég einmitt að hægt sé að vísa til þess að fiskifræðingunum okkar, sem ég met að miklu, getur líka skjöplast eins og öðrum. En ég segi: Sú tillaga sem ég hef uppi um aukna sókn í þorsk er fyrst og fremst pólitísk. Það er af pólitískum ástæðum sem ég tel að verði að taka þá ákvörðun, vegna þess að það blasir við atvinnuleysi byggðanna frá Snæfellsnesi til Húnaflóa ef ekki verður eitthvað að gert. Ég er ekki að segja að það eigi að rjúka til nema að vel athuguðu máli, en ég tel að þetta komi til greina. Og ég segi alveg eins og er að ég sé enga aðra lausn í málinu. Ég er bara þetta einfaldur. Ég sé ekki aðra lausn heldur en að heimila þetta vegna þess að þetta svæði hefur þó þrátt fyrir allt orðið fyrir mestri skerðingu á þorskafla.