Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:06:47 (4159)


[21:06]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að það er svolítið merkilegt að vera hér í dag og hlusta á þessa umræðu og fylgjast með því að meiri hluti þeirra stjórnarliða sem hafa talað í þessu máli hafa lýst því yfir að það væri margt við þetta frv. að athuga. Ég satt að segja hélt að allur sá tími sem liðinn væri frá því að endurskoðun þessa frv. átti að ljúka hefði verið notaður til þess að reyna að fykja liði í þessu máli hjá stjórnarliðinu. En það er annað komið upp í dag þannig að ég fer að efast um afgreiðslu þessa máls.
    Ég vil spyrja hv. þm. Sturlu Böðvarsson, sem hér talaði áðan, þar sem hann sagði, ég man það ekki nákvæmlega en held að ég hafi heyrt það rétt, að fiskvinnsla fyrir norðan neyddi sjómenn til þess að fiska. Ég átti mig ekki alveg á hvernig það er hægt að einhver fiskvinnsla neyði sjómenn til þess að fiska. Ég spyr: Hvernig ætlar þá hv. þm. að svara því og þeim hugmyndum sem núna eru komnar inn í frv., breytingar frá fyrri frumvörpum, um að það eigi að færa aflaheimildir yfir á fiskvinnslustöðvarnar? Ekki verða það fiskvinnslustöðvarnar sem fara að veiða. Einhverja þurfa þær að fá til að veiða fyrir sig og ætlar þá hv. þm. að kalla það í því frv. sem hann er hér að leggja fram og hefur verið rætt margsinnis í þingflokki Sjálfstfl., ætlar hann að segja að hann sé að leggja það til að fiskvinnslustöðvarnar fari að neyða sjómenn til að fiska fyrir sig? Er það það sem hann var að samþykkja og leggja hér fram?