Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:10:56 (4161)


[21:10]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að ég held að menn geri of mikið úr því hversu ósanngjarnt kerfi það sé þegar menn veiða tonn á móti tonni sem kallað er. Ég er á því að það séu ekki svo galin viðskipti ef við skoðum þau grannt. Ég vil hins vegar gera sterkan greinarmun á því hvort menn eru að fiska tonn á móti tonni og gera það á það sem við getum kallað eðlilegan hátt heldur en að láta sjómenn taka þátt í kaupum á aflarétti. Ég er andvígur því og hef marglýst því yfir.
    En ég vil enn ítreka spurningu mína til hv. þm. Nú er hann að leggja til að þetta verði fest inni í nýjum lögum. Hv. þm. hefur samþykkt það í þingflokki Sjálfstfl. að leggja það til núna í nýju frv. um það að færa aflarétt frá sjómönnum og frá fiskiskipunum yfir á vinnslustöðvarnar sem síðan þurfa að fá einhverja til að fiska fyrir sig. Og hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur valið því þau orð að segja að fiskvinnslustöðvarnar verði látnar neyða sjómenn til að fiska fyrir sig. Það er það kerfi sem hv. þm. hefur fundið upp og var samþykkt í þingflokki Sjálfstfl.