Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:12:30 (4162)


[21:12]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það má náttúrlega láta áhafnir fiskiskipa taka þátt í kvótakaupum með ýmsum hætti. Ég tel að við hin svokölluðu viðskipti tonn á móti tonni, (Gripið fram í.) séu sjómenn í rauninni að taka þátt í kvótakaupum með því. Það er í því formi að verðið er þeim mun lægra þannig að það þarf hvorki að blekkja einn né annan með því. Verðið er lægra í þessum viðskiptum og með þeim hætti eru sjómenn látnir taka þátt í þessum viðskiptum.
    Ég tel að með því að fiskvinnslustöðvarnar hafi þennan rétt og þennan möguleika þá eigi að geta skapast meira jafnvægi á þessum markaði. Hins vegar þarf að fylgja því og það þarf að gæta þess, að ég tel, og til þess er verið að ræða þetta frv., til þess er verið að ræða lögin um stjórn fiskveiða að við þurfum að reyna að ná hinni bestu niðurstöðu. Ég treysti sjútvrh. og hv. þm. í sjútvn. mjög vel til þess að leiða þá vinnu sem hér þarf að vinna. Og ég tel að sjútvrh. hafi náð mjög góðum árangri í því að koma þessu frv. fram en það þýðir ekki það að ekki megi gera neinar breytingar eða bragarbót á lögunum umfram það sem frv. gerir ráð fyrir.