Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:14:09 (4163)


[21:14]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Við ræðum frv. til laga um fiskveiðistjórnun í skugga mikilla erfiðleika í sjávarútvegi og mikils aflasamdráttar sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, einkanlega í okkar helstu nytjategund, þ.e. þorskinum. Svo sérkennilegt sem það nú er þá var það líka svo fyrir rúmum 10 árum þegar menn ræddu þá um nýmæli sem upp skyldi tekið við stjórn fiskveiða, setningu laga sem kennd hafa verið við kvótann. Þá voru þau lög líka rædd í skugga mikillar umræðu um alvarlega stöðu fiskstofnanna, einkum þorskstofnsins. Þannig er mál með vexti að fram til þess tíma hafði ríkt býsna sæmilegur friður um stjórn fiskveiða. Þá var það þannig að fram að þeim tíma höfðu menn stjórnað eftir allt öðru kerfi í grundvallaratriðum og við það höfðu búið m.a. þrír sjávarútvegsráðherrar úr jafnmörgum stjórnmálaflokkum, m.a. úr Framsfl., núv. formaður Framsfl., og allir komist að þeirri niðurstöðu að við það kerfi stjórnunar fiskveiða væri hægt að búa.
    Fyrir 10 árum og gott betur voru hins vegar þær aðstæður uppi að fiskifræðingar höfðu varað mjög við alvarlegri stöðu þorskstofnsins og höfðu þess vegna hvatt til þess að gripið yrði til mjög róttækra ráðstafana sem urðu síðan til þess að lög um fiskveiðistjórnun á árinu 1984 voru samþykkt, lögin sem kennd hafa verið við kvótann.
    Ástæðunni fyrir þessu var svo lýst af þáv. hæstv. sjútvrh., Halldóri Ásgrímssyni, núv. hv. 1. þm. Austurl., en hann sagði svo í ræðu á Alþingi 19. des. 1983, með leyfi forseta:
    ,,Vegna þess að ástand fiskstofna, einkum þorsks, hér við land er óvenjulega slæmt er brýn þörf á vísindalegri stjórnun á fiskveiðum í enn ríkari mæli en nú á sér stað. Helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi og fiskiþing hafa eindregið óskað eftir því að stjórnvöld auki verulega stjórn fiskveiðanna.``
    Þetta voru sem sagt aðalástæður fyrir því að við ákváðum á þeim tíma að taka upp það kerfi fiskveiðistjórnunar sem við höfðum búið við í lítt breyttri mynd eða í öllum grundvallaratriðum skulum við segja allt fram á þennan dag.
    Við skulum átta okkur á því að þær aðstæður sem eru uppi í íslenskum sjávarútvegi núna eru um flest mjög óvenjulegar. Aðallega vegna þess að þær tekjur sem sjávarútvegurinn sem atvinnugrein þarf að búa við eru miklu minni en áður vegna skerðingar þorskveiðinnar. Ég vil vekja athygli á því ef við skoðum aflann í þorski á síðustu 10 árum þá var hann að meðaltali 325 þús. tonn á ári. Nú er okkur ætlað að búa við það, greinin á að lifa með því og þjóðarbúið að byggja á því að við drögum úr sjó u.þ.b. helmingi minni þorskafla heldur en við gerðum að meðaltali á tíu árunum á undan. Þetta eru auðvitað gríðarleg umskipti. Á síðustu árum höfum við farið í gegnum miklar skerðingar á aflaheimildum í þorski sem að hluta til hafa kannski ekki komið jafngrimmilega við menn vegna þess að aflabrögðin voru lakari. Það var erfiðara að sækja þennan fisk, sérstaklega hjá okkar afkastamestu veiðiskipum, togurunum, sem gerði það að verkum að þeir gátu geymt á milli ára vegna heimildarinnar um 20% geymslurétt og þess vegna var það svo að á síðasta fiskveiðiári og jafnvel fram á þetta, þá hafa menn verið að njóta geymsluréttarins sem menn bjuggu við og gátu notið vegna lakari aflabragða fram að þessu. Nú er þessu ekki lengur til að dreifa. Aflabrögðin hafa gjörbreyst. Í stað ördeyðunnar sem var fyrir tveimur árum eru aflabrögðin góð. Það fiskast vel hvarvetna þar sem skip sækja sjó. Það er góður afli togaranna. Það er góður afli bátaflotans og færabátar á undanförnum sumrum hafa raunar verið að fiska býsna vel. Þess vegna er staðan sem við stöndum frammi fyrir núna allt önnur og miklu verri. Aflaheimildirnar munu fyrirsjáanlega ekki duga og þess vegna hef ég haldið því fram og vil nefna það hér svo það fari ekkert á milli mála að ég tel nauðsynlegt og óumflýjanlegt, óhjákvæmilegt að teknar verði ákvarðanir um aukningu aflaheimilda í þorski.

    Ég tel að það séu uppi svo ríkar ástæður, bæði líffræðilegar og efnahagslegar að það beri að taka slíka ákvörðun. Ég segi það hér og nú að ég trúi því ekki að niðurstaða svokallaðs togararalls sem mun fara fram í næsta mánuði verði önnur en sú að um það sé að ræða að þorskstofninn sé í örum vexti. Mér finnst sjálfum ekkert ólíklegt að ástæðan fyrir því sé einmitt sú að hæstv. sjútvrh. hefur fylgt þeirri stefnu á síðustu árum að draga úr veiðiheimildunum í þorski og þær aðgerðir séu núna að skila sér rösklegar heldur en menn reiknuðu með vegna þess að aðstæðurnar í lífríki hafsins hafa batnað. Ætismöguleikar þorsksins og annarra nytjafiska eru auðvitað allt aðrir heldur en þeir voru fyrir örfáum missirum síðan.
    Ég hef orðið var við það að menn hafa stigið mjög á stokk, ekki síst sumir talsmenn Framsfl., og sagt: Þetta er algjört ábyrgðarleysi. ( Gripið fram í: Hvað þá?) Að auka veiðiheimildir í þorski. Og þá verð ég að vekja athygli á því að það er ekki í fyrsta skipti, virðulegi forseti, sem veiðiheimildir í þorski hafa farið eitthvað aðeins fram yfir það sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. ( IP: Enda ekki gott.) Enda ekki gott, segir hv. 2. þm. Vesturl., fulltrúi Framsfl. á þingi. Og nú skulum við sjá hvernig staðið var að málum á árum áður þegar ,,ábyrgri sjávarútvegsstefnu`` var fylgt að mati þeirra framsóknarmanna. Árið 1984 var farið fram yfir í afla á þorski, fram yfir tillögur Hafrannsóknastofnunar ekki um 10% eða 20%. ( StG: Var ekki breytt um kerfi?) Þá var tekið upp þetta fína kvótakerfi. (Gripið fram í.) Þá var farið fram yfir, hv. þm., um 42%. ( StG: Menn breyttu, settu í aflamark úr sóknarmarki. Þetta veit þingmaðurinn vel.) Árið 1985 var farið fram yfir um 63%. ( Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Alveg rétt. Og hvað gerðist þá? Ætli þá hefði ekki verið eðlilegt miðað við kenninguna að það hefði verið dregið úr aflanum og tillögur Hafrannsóknastofnunar hefðu verið um það að draga úr aflanum? En ætli hv. þm. muni hvað gerðist árið 1986 í tillögum Hafrannsóknastofnunar? Tillögur Hafrannsóknastofnunar gerðu ráð fyrir því að aflaheimildir í þorski yrðu auknar um 50% eftir að við höfðum farið fram úr tillögum stofnunarinnar um 63%. Og svo koma menn og segja: Það er ábyrgðarleysi að leggja til einhverja örlitla viðbót við það sem Hafrannsóknastofnun er að leggja til. ( Gripið fram í: Menn ráku sig á.) Menn ráku sig á. Og hvenær ætli sá árekstur hafi orðið? Ætli hann hafi þá orðið árið eftir? Þegar hv. þm. sat á þingi ári síðar, ef ég man rétt, var enn farið 31% fram yfir og enn lagði Hafrannsóknastofnun til sömu hámarkstölu í þorski. Og enn næsta ár 26% fram yfir og enn lagði Hafrannsóknastofnun til sömu tölu í þorski.
    Ég nefni þetta hér, virðulegi forseti, til þess að vekja athygli á því að það er ekki óþekkt fyrirbrigði að menn hafi farið fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar vísvitandi og samt sem áður hefur verið lögð til aukning árið eftir af vísindamönnum á Hafrannsóknastofnun. Sú staða er nefnilega mjög alvarleg þegar svo er komið að fram undan blasir við verkefnaleysi í fiskiskipaflota landsmanna yfir hábjargræðistímann, t.d. yfir sumarmánuðina eins og við blasir við óbreyttar aðstæður í stórum landshlutum.
    Því er ekki að neita að sú mikla skerðing sem menn hafa tekið út á síðustu árum í þorskinum hefur komið mjög misjafnlega niður á svæðum og er núna að birtast mönnum í þessum miklu erfiðleikum sem hafa komið upp á Vestfjörðum á undanförnum mánuðum og missirum. Ég hef að gamni mínu búið til lítið dæmi um annars vegar áhrifin á svæði þar sem uppistaðan í veiðunum er þorskur og á svæði þar sem uppistaðan í veiðunum er karfi. Ef við tökum þetta ímyndaða dæmi, sem gæti verið býsna nálægt raunveruleikanum mjög víða, og við skulum ímynda okkur að sá staður hafi verið með 1.800 tonn af þorski og 600 af karfa. Gróflega reiknað eru það 1.800 tonn í þorskígildum, í þorskinum, og 300 í karfanum, alls 2.100 tonn. Eftir alla þá skerðingu sem orðið hefur má áætla að þessi útgerð hafi farið úr 2.100 þorskígildum niður í 900. En karfaútgerðin, sem í upphafi var með 1.800 tonn af karfa og 600 af þorski, með öðrum orðum 1.500 þorskígildi gróflega reiknað, hún stendur núna uppi með 1.100 þorskígildi. Með öðrum orðum: Fyrir skerðingu var þorskútgerðin með 2.100 þorskígildi, karfaútgerðin 1.500. Núna hefur þetta snúist við: Þorskútgerðin er komin niður í 900 og karfaútgerðin í 1.100.
    Þetta er í hnotskurn sá mikli vandi sem við blasir í byggðarlögunum þar sem allt byggist meira og minna á þorskveiðunum.
    Virðulegi forseti. Það verður ekki hjá því komist að skoða sérstaklega vanda þeirra byggðarlaga sem hafa orðið harðast úti vegna aflaskerðingarinnar undanfarin ár. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í mörgum tilvikum hafa menn orðið að bregðast þannig við að reyna að halda sjó með því að selja frá sér aflaheimildirnar. Hvað gerist nú þegar að því kemur að hægt verður að auka aflann að nýju? Tökum annað dæmi, tilbúið að vísu en mjög í ætt við þann raunveruleika sem blasir sums staðar við:
    Sjávarútvegsstaður hefur verið með 2.000 tonna þorskígildi í kvóta. Þar hefur kvótinn verið seldur burtu og nú stendur þessi staður uppi með 500 þorskígildi. Þegar að því kemur að kvótinn eykst að nýju, við skulum segja um 50%, þá kemur sú aukning ekki ofan á 2.000 tonnin sem viðkomandi staður hafði í upphafi, heldur ofan á 500 tonnin. Þannig að í stað þess að fá 1.000 tonna aukningu fær þessi staður 250 tonn. Nú skulu menn velta því fyrir sér hverjir eru möguleikar þessara plássa til að rétta úr kútnum þegar svo er komið að þeir hafa neyðst til að selja frá sér allar þessar aflaheimildir. Þetta er því miður samt sá bitri raunveruleiki sem blasir við allt of víða, m.a. á Vestfjörðum þar sem ég þekki gleggst til. Það gengur ekki að menn gangi í gegnum þetta þannig að menn geti ekki fengið aðstæður til að standa af sér þessa storma og standi síðan eftir gjörsneyddir möguleikanum til þess að bjarga sér með þeim eina hætti sem menn þekkja, þ.e. að sækja sjóinn. Það verður að grípa þarna til ráðstafana og það er ekki síst þess vegna sem ég hef verið svo harður talsmaður þess að auka aflaheimildirnar núna þegar ég er svo sannfærður um að svigrúm er til þess í raunveruleikanum.

    En það er auðvitað með ýmsum öðrum hætti hægt að gera það að verkum að menn hafi svigrúm, jafnvel innan núverandi kerfis, til þess að reyna að bjarga sér. Ég skal taka dæmi: Það hefur mikið verið rætt um stöðu krókabátanna og ég er einn af þeim sem hafa tekið þátt í þeirri umræðu. Umræðan frá mínum bæjardyrum séð snýst ekki síst um það að þarna eru líka möguleikar fyrir þessa staði þar sem kvótinn er lítill, aflaheimildirnar eru orðnar litlar til þess að bjarga sér með því að stunda útgerð á krókabátum sem ekki eru háðar aflakvótum og takmörkunum af því taginu. Við höfum séð það víða á Vestfjörðum, á stöðum eins og Tálknafirði, Flateyri og Suðureyri, svo ég taki nú bara þrjú dæmi af fullkomnu handahófi, við höfum séð dæmi um það að þessir staðir hafa getað aukið tekjur sínar yfir hásumarið, yfir hábjargræðistímann fyrir þessa báta einmitt með því að laða að sér krókaleyfisbáta en útgerð þeirra hentar býsna vel á Vestfjörðum yfir hásumarið.
    Í öðru lagi --- og það tel ég að sé kannski hvað mikilvægast og ég vil sérstaklega árétta hér vegna þess að um þetta var ályktað á landsfundi Sjálfstfl. --- er sú aðferð að þegar það blasir við þegar verulega er liðið á kvótaár að afli í einhverri tiltekinni tegund muni fyrirsjáanlega ekki nást, þá verði veitt heimild til þess að taka af kvótabindinguna og heimila mönnum þess í stað veiðar með frjálsum hætti síðari hluta kvótaársins.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þessi slaki sem þar yrði gefinn út mundi hafa mikil áhrif einmitt til þess í fyrsta lagi að draga úr því sem menn hafa verið að kalla kvótabrask. Þrýstingurinn fyrir kvótalitla báta til þess að afla sér kvóta á leigumarkaðnum eða með einhverjum öðrum hætti mundi gjörbreytast og snarminnka. Ég nefni sem dæmi að í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á síðasta löggjafarþingi kemur það í ljós að býsna oft á undanförnum árum hefur ýsuafli, miðað við það sem Hafrannsóknastofnun gaf út, og eða stjórnvöld leyfðu, alls ekki náðst. Það vantaði t.d. 18% upp á það árið 1987, 10% árið 1988 og á árunum 1991--1992 4%, svo ég taki dæmi. Svipaða sögu er að segja um rækju og ýmsar aðrar tegundir sem óþarfi er að telja hér upp. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þessi aðgerð ein út af fyrir sig mundi draga verulega úr þeirri miklu spennu sem nú er í þessu kerfi og hefur valdið átökum milli byggðarlaga, svæða, veiðitegunda og kjördæma. Þetta mundi líka gera það að verkum að staða ýmissa smábáta sem núna veiða á kvóta, en þeirra staða hefur aðeins komið til umræðu, mundi gjörbreytast vegna þess að þar yrðu nýir möguleikar fyrir þessa báta til þess að afla sér tekna á vannýttum tegundum.
    Virðulegi forseti. Úr því að ég er farinn að nefna sérstaklega stöðu smábáta með kvóta þá held ég að það sé nauðsynlegt að fjalla aðeins betur um þau mál. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram í umræðum fyrr í dag að það er ekki vansalaust hversu lítið hefur verið fjallað um vanda þessara báta sérstaklega. Það má þó tvíhöfða nefndin eiga að hún beindi sjónum sínum að vanda þessara báta og lagði til að á vandanum yrði tekið með því að úthluta þeim auknum kvóta alveg sérstaklega. Ég vil hins vegar leggja hér aðeins orð í þennan belg og varpa upp hugmynd sem ég held að gæti orðið til að greiða úr þessum vanda. Eins og menn vita hafa ýmsir útgerðarmenn og sjómenn á þessum litlu kvótabátum farið í það til þess að reyna að bjarga sér að róa yfir háskammdegið á tvöföldunartímanum á línunni, nóvember og desember, janúar og febrúar. Það sjá allir viti bornir menn að það er ekki nein glóra í þessu, nánast að beina, nánast að hvetja og nánast að ýta mönnum út í veiðar á litlum bátum á úthafinu yfir háskammdegið þegar allra veðra er von. Það er ekki verjanlegt frá neinum sjónarhóli að standa þannig að málum. Þetta er hins vegar vegna þess að tvöföldunartíminn á línunni er þarna yfir háskammdegið. Og þess vegna vil ég varpa því fram, og ég vænti þess að þetta verði tekið vandlega til athugunar í hv. sjútvn., hvort ekki komi til greina að koma á þann veg til móts við þessa báta sérstaklega að þeim verði veitt heimild til þess að taka sína tvöföldun á línunni á öðrum árstímum þannig að slakinn á sókninni hjá þeim verði aukinn yfir háskammdegið og þeir geti farið að veiða þegar það er bærilegra fyrir þessa litlu báta að stunda sjóinn.
    Mjög mikil umræða hefur farið fram í þjóðfélaginu um stöðu krókabátanna og mér finnst að mörgu leyti að sú umræða hafi ekki verið alveg í samhengi við annað í þessu frv. þó vissulega ætli ég ekki að gera lítið úr stöðu eða vanda krókabátanna í þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Ég vil lýsa því yfir að ég fagna því í sjálfu sér að með þessu frv. sem við ræðum nú hefur verið tekin ákvörðun um það að hverfa frá þeirri hugmynd að kvótabinda veiðar krókaleyfisbáta. Ég vil vekja athygli á því sem kom til umræðu í dag í orðaskiptum okkar hv. 1. þm. Austurl. að með þessari ákvörðun er verið að hverfa frá þeirri fiskveiðistjórnarstefnu sem þingmenn Alþfl., Alþb. og Framsfl. stóðu að með setningu þeirra laga sem nú er í gildi. Það er auðvitað alveg kristaltært og krítarklárt að í ákvæði til bráðabirgða við fiskveiðistjórnarlögin sem nú gilda var sett inn með afmörkuðum hætti hvernig ætti að fara með þessa báta í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þannig var gert ráð fyrir því að strax um mánaðamótin ágúst/september næstkomandi við núverandi aðstæður hyrfu þessir bátar út úr krókaleyfinu og yrðu að gera sér að góðu kvóta sem við núverandi aðstæður yrði agnarsmár og flestum ofviða að reyna að glíma við að því leytinu að tekjur þeirra af þessum kvóta yrðu svo litlar að það er alveg fyrirsjáanlegt að þær stæðu engan veginn undir þeirri fjárfestingu sem í þessum bátum liggur. Nú upplýsti hv. 1. þm. Austurl. okkur um það í dag að það hafi ekki verið sinn ásetningur eða vilji í sjálfu sér að standa þannig að þessu, heldur skildist manni sem svo að það hefði verið gert pólitískt samkomulag, pólitísk málamiðlun í þeirri ríkisstjórn sem Alþfl. og Alþb. stóðu m.a. að, að fara þessa leið, fara með krókabátana beint inn í kvótann. Þetta er auðvitað meiri háttar frásögn þegar það liggur fyrir að í Alþfl. og Alþb. hafa menn haft uppi stór orð um hugmyndir um það að kvótabinda afla

krókaleyfisbátanna þegar frá því er greint að fyrrv. hæstv. sjútvrh. hafi síst af öllu kært sig um það að fara þessa leið en látið undan í pólitískri málamiðlun í þáv. ríkisstjórn. Þetta eru staðreyndir sem er nauðsynlegt að halda hér til haga.
    Ég held að varðandi þessa krókabáta þurfi að skoða þessa báta með tvenns konar hætti. Það verður annars vegar að skoða þá báta sem eingöngu er haldið út til veiða hluta af árinu og jafnvel bara yfir blásumarið. Bátar sem þannig háttar til um eiga ekki að þurfa að lúta nákvæmlega sömu sóknartakmörkunum og bátar sem haldið er til veiða yfir allt árið. Ég get vel tekið undir það sem hér hefur verið sagt líka í dag að að mínu mati væri það miklu ásættanlegri leið til þess að takmarka veiðar krókabáta að láta þá takmörkun fyrst og fremst koma niður á annars vegar löngum tímabilum í kringum páska og verslunarmannahelgi og sunnudögum og nýta síðan þá miklu takmörkun sem í því felst að margir þessara báta eru uppi á fjörukambi sex og upp í sjö mánuði á ári og mörg dæmi um það að þeir séu þaðan af meira.
    Ég held með öðrum orðum að slík sóknarstýring á þessum bátum gæti skilað okkur nákvæmlega sömu niðurstöðunni hvað heildarafla áhrærði en væri miklu eðlilegri og sanngjarnari heldur en við erum hér að tala um, fyrir nú utan það að ég er alveg sannfærður um að það er rétt sem margir þessara sjómanna hafa sagt opinberlega að um leið og samkeppnisþátturinn verður tekinn út úr þessu, samkeppnisþátturinn sem hefur falist í því að menn hafa ímyndað sér að þeir væru að vinna sér inn nýjan kvóta, nýja veiðireynslu, um leið og þetta hyrfi út þá mundi að sjálfsögðu draga úr sókn mjög margra þessara báta.
    Virðulegi forseti. Menn hafa í þessari umræðu verið að finna nokkuð að því að við sem teljumst til stjórnarliða skulum fjalla um þessi mál á víðum og breiðum grundvelli. Ég verð að játa að það væri með ólíkindum ef umræða af þessu taginu gæti aðeins farið fram á einhverri örmjórri snúru sem menn gætu ekki vikið út frá og menn yrðu að fylgja hér eftir einhverri slíkri línu og forskrift að það væri ekki hægt að hafa nokkra sjálfstæða skoðun á einu eða neinu. Þetta kann að hafa verið þannig í Framsfl. Það kann vel að vera að þar hafi menn látið sér þetta vel líka. En það er ekki þannig þegar verið er að fjalla um stórt mál af því taginu sem fiskveiðistjórnun er, sem að mörgu leyti gengur þvert á flokksböndin og þar sem hagsmunir manna vegast á, þar sem verið er að takast á við sjálft fjöreggið, sjávarútveginn, þá er það ekkert óeðlilegt að uppi séu dálítið mismunandi viðhorf líka innan stjórnmálaflokkanna. Halda menn kannski að það sé einhver tilviljun að ekkert mál hefur vafist eins fyrir íslenskum stjórnmálaflokkum að komast að niðurstöðu um og þetta mál alveg sérstaklega? Og af því að hér er t.d. talsmaður Alþb. í þessum þingsal þá veit hann það vel að í hans flokki m.a. og í öllum öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum, nema kannski í Framsfl. þar sem menn eru orðnir svo múlbundnir, þá hafa menn tekist hraustlega á um þetta mál vegna þess að hagsmunirnir hafa vegist þar á. Þess vegna er það ekkert óeðlilegt að við veltum fyrir okkur ýmsum þáttum sem grundvallandi mega teljast í þessari umræðu.
    Ég vil t.d. vekja athygli á því að í framkvæmd kvótakerfisins fyrr á árum var það iðulega tíðkað, iðulega praktíserað, að fara inn í grundvöll sjálfs kerfisins þegar mönnum þótti það henta og færa til aflaheimildir hreinlega með handafli frá einu skipi til annars, frá einni verstöð til annarrar, frá einu svæði til annars. Ég skal taka tvö lýsandi dæmi um þetta sem er nauðsynlegt að sjálfsögðu að ræða um. (Gripið fram í.) Ég er að tala hér um fortíðarvanda sem Framsfl. skapaði og ég veit að þingmönnum Framsfl. líður ekkert allt of vel þegar það er rifjað upp en það verður þá bara að hafa það.
    Í fyrsta lagi hefur rækilega verið sýnt fram á það með hvaða hætti var á sínum tíma farið í grundvöll grálúðukvótans og hann færður til á milli svæða. Þá var það gert með ýmsum hætti, m.a. þeim að það var dregið ákveðið lágmark og skipum sem höfðu nánast enga aflareynslu í grálúðu var færður grálúðukvóti upp á hundruð tonna. Halda menn nú virkilega að þetta hafi ekki einhvers staðar komið niður, að þetta hafi ekki einhvers staðar komið við? Hvar ætli þetta hafi komið við? Að sjálfsögðu á þeim svæðum þar sem grálúðuaflinn hafði verið mestur fyrir. (Gripið fram í.) Þetta var á árunum 1986 til 1988 eða þar um bil. ( Gripið fram í: Hver var þá forsrh.?) Þá var þetta gert með þessum hætti. Þá var færður til grálúðukvóti og það var gert með öðrum hætti líka. Á sínum tíma --- og það er guðsþakkarvert --- þegar verið var að hvetja menn til veiða á úthafskarfa var hvatt til þess með þeim hætti að skip sem fóru til úthafskarfaveiða fengu sérstaka umbun í formi grálúðukvóta. Svo undrast menn það að menn velti því fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að fara inn í grundvöll þessa kerfis frá a til ö.
    Í öðru lagi er það deginum ljósara að menn gerðu það með handafli að færa til aflaheimildir, m.a. í þorski í gegnum hið svokallaða sóknarmark. Sóknarmark var í sjálfu sér býsna athyglisverður kostur að mínu mati í upphafi, ef menn hefðu fengið að vera í friði með þetta, og ef menn hefðu ekki síðan verið að fikta í þessu sí og æ og taka þar aflaheimildir og færa til nánast eftir ,,behag``. Það er auðvitað athyglisvert þegar maður skoðar tölur aftur í tímann og sér það að á árinu 1985, þegar meðaltalssóknarmarkið var fyrst sett á, þá var það á suðursvæði þannig að skip á suðursvæði höfðu að meðaltali 50% af aflanum í þorski á norðursvæði. Á örfáum árum var síðan tekin um það pólitísk ákvörðun að færa þessar aflaheimildir saman þannig að það endaði svo eftir nokkur ár að aflaheimildir skipa á suðursvæði voru ekki lengur 50% af þorskafla á norðursvæði heldur 70%.
    Virðulegi forseti. Það er mjög eðlilegt við 1. umr. þessa máls sem við erum að ræða hér á Alþingi, stærsta málið sem væntanlega kemur til okkar kasta í vetur, að við ræðum það frá grunni. Ég hefði talið það mjög sérkennilega umræðu um mál sem svo mikill ágreiningur er um í okkar þjóðfélagi ef menn hefðu rætt það með svipuðum hætti og þegar köttur fer í kringum heitan graut. Það hefði verið mjög einkennilegt ef menn hefðu ekki látið í ljósi skoðanir sínar, áhyggjur sínar og ábendingar sínar um ýmislegt sem betur má fara í þessu kerfi. Ég hefði talið það slaklegt veganesti frá 1. umr. til sjútvn. ef menn hefðu ekki einmitt tekið á því að fjalla um þetta mál af einlægni. Ég get engan veginn fallist á það sjónarmið sem mér fannst skína í gegn hjá framsóknarmönnum í umræðunni áðan, og var auðvitað tilraun hjá þeim til þess að draga athyglina frá umræðunni sjálfri, að reyna að gera umræðuna eitthvað tortryggilega að því leytinu að í stjórnarliðinu væru uppi mismunandi áherslur í ýmsum málum. Það er bara þannig að í stjórnarliði allra tíma, frá því að núverandi kvótalagasetning varð að raunveruleika árið 1984, þá hefur verið ágreiningur í stjórnarflokkunum. Var það svo að Sighvatur Björgvinsson samþykkti kvótafrumvarp þegar það var síðast tekið til meðferðar á Alþingi, eða Skúli Alexandersson, svo ég taki dæmi? Ekki aldeilis. Voru þó báðir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í: Eða Karvel.) Eða Karvel Pálmason?
    ( Forseti (VS) : Háttvirtir þingmenn.)
    Háttvirtir þingmenn, virðulegi forseti, þetta undirstrikar einfaldlega það að þetta er ekki svona eins og Framsfl. vill álíta, að ágreiningurinn sé á milli stjórnmálaflokkanna eingöngu í þessum efnum. Þess vegna eiga menn ekkert að vera að draga neina fjöður yfir það að það sé uppi einhver meiningarmunur.
    Ég vænti þess hins vegar og vona að í þessu mikilvæga máli takist þrátt fyrir allt farsæl lausn og mönnum auðnist að ná saman að lokum. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að í máli sem þessu hlýtur málamiðlun að verða niðurstaðan og við munum ekki, ekkert okkar, fá allt okkar fram. Við lok dagsins munum við hins vegar þurfa að standa frammi fyrir því og gera það upp við okkur sjálf hvort við viljum fylgja þeirri málamiðlun eins og hún þá blasir við eða ekki. Það kemur auðvitað í ljós eftir þá miklu vinnu sem er fram undan í hv. sjútvn. Ég trúi því hins vegar að með góðum vilja muni menn ná saman um skynsamlega niðurstöðu þar sem m.a. verði tekið tillit til þeirra margvíslegu ábendinga sem ég hef vakið athygli á í ræðu minni í kvöld.