Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:48:06 (4164)


[21:48]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er mikil vinna fram undan ef á annað borg þetta umræðuefni verður sett á því það er greinilegt af þeim stjórnarliðum sem hér hafa talað, og þeir eru orðnir æðimargir, sennilega fleiri en stjórnarandstæðingar, að þeir finna frv. sem hér hefur verið lagt fram allt til foráttu og þar af leiðandi er það greinilegt að það er mikil vinna fram undan. Þessa vinnu tel ég, og vil spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki líka, að hefði verið eðlilegra að vinna áður en frv. var lagt fram og í sátt við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og í sátt við stjórnarandstöðu þar sem hann réttilega benti á að sagan hefur sýnt okkur það að ágreiningur um sjávarútvegsmál nær yfir flest flokksbönd.