Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:54:45 (4168)


[21:54]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Það er merkilegt að hlusta á þessar umræður, virðulegi forseti. ( GunnS: Þær eru góðar.) Þær eru góðar og merkilegar og það er ekki aðeins að sjálfstæðismenn spyrji um afstöðu okkar framsóknarmanna til frv. um sjávarútvegsmál. Þeir spyrja einnig um afstöðu okkar til þeirra mála sem núna eru til meðferðar í landbn. Þeir spyrja ekki samstarfsflokkinn hvernig er um framvindu þessara mála. Þeir spyrja um afstöðu framsóknarmanna.
    En ég vildi spyrja hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson að því út af þeim orðum sem hann lét falla, ég ætla ekki að velta mér svo mikið upp úr fortíðinni en það veit hv. þm., svo hefur hann nálægt sjávarútvegi komið, að Framsfl. hefur aldrei einn farið með völd í landinu. ( EKG: Sem betur fer.) Já, sem betur fer, segir þingmaðurinn en það gæti nú komið að því og hann má kannski búast við að þurfa að þola það. En ég vil spyrja hv. þm.: Er það virkilega svo að hann hafi aldrei velt upp þessum hugmyndum sínum, sem hann er hér að hreyfa, í þingflokksherbergi Sjálfstfl. þegar þetta frv. var þar til umræðu? Er það virkilega svo að hann hafi ekki velt upp þessum möguleikum sem hann er hér að kynna í kvöld niðri í þingflokksherbergi Sjálfstfl. og fengið þá flokksbræður sína til þess að ganga til liðs við sig? Fékk hann ekki hljómgrunn fyrir þessum hugmyndum sínum inni í þingflokksherbergi Sjálfstfl. áður en málið var lagt fram? Stjórnarandstaðan og hagsmunaaðilar hafa aldrei verið spurð í þessu máli þrátt fyrir ákvæði sem kveður skýrt á um það í lögunum, um endurskoðunarákvæði, stjórnarandstaðan hefur ekki verið spurð. Þetta er lagasmíð sem er samþykkt í þingflokksherbergi Sjálfstfl. af hv. þm. Einari Kr. Guðfinnssyni sem hann er kominn hér eins og fleiri af þingmönnum Sjálfstfl. til þess að rífa niður. Frv. sem hans eigin ráðherra er að leggja fram.