Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 22:58:31 (4183)


[22:58]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo með hv. 2. þm. Vestf. að þegar honum hleypur kapp í kinn, sem er nokkuð oft, þá leggur hann ekki eyrun við því sem sagt er. Allar athugasemdir mínar um lélegt skyggni

í fjárfestingum snertu þær hugmyndir sem hafa komið fram um að afnema heimild til frjálsra viðskipta með kvótann. Ég tel að það sé grundvallaratriði sem ekki sé á nokkurn hátt hægt að sætta sig við. Ef það yrði gert þá yrði grafið undan fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu eins og hún hefur farið fram á sl. árum. Ég held að það fari ekkert á milli mála í málflutningi mínum að það var þetta sem ég átti við í svari mínu við andsvari hv. 9. þm. Reykn.
    Að því er varðar frv., sem ég ræddi um einnig áðan enda er það til umræðu í kvöld, þá eru þar ákveðnir gallar en í því frv. er ekki lagt til að leggja niður frjáls viðskipti með kvóta. Ég vona að hv. þm. geri sér grein fyrir því að ég geri talsverðan greinarmun á þessum málum.
    Að því er varðaði fullyrðingu um að einhver ákveðin útgerð hefði fengið sinn kvóta ókeypis þá ætla ég ekki, hv. þm., að ræða fjárhagslega stöðu ákveðinna útgerðarfyrirtækja. Það er alveg ljóst. Ég hefði satt best að segja haldið að það væri eðlilegra að hv. þm. sýndi þá tillitssemi að fara ekki upp í pontu á Alþingi með fjármál einstakra útgerða.